Fara í efni
KA

Fjörugt sex marka jafntefli – MYNDIR

Sandra Voitane og samherjar hennar hjá ÍBV vita að ráðlegast er að hafa góðar gætur á Söndru Maríu Jessen en náðu þó ekki að kom í veg fyrir að Sandra María gerði tvö mörk og ætti stóran þátt í þvi þriðja. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA nældi í eitt stig þegar liðið gerði 3:3 jafntefli við ÍBV í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu á Þórsvellinum (SaltPay vellinum). Stelpurnar okkar eru þar með komnar með 14 stig, tveimur meira en Afturelding sem er í efra fallsætinu þegar þrjár umferðir eru eftir.

Fyrsta mark Þórs/KA var sjálfsmark eftir fasta fyrirgjöf Söndru Maríu Jessen og Sandra gerði tvö seinni mörk liðsins.

_ _ _

UNGIR VARNARMENN
Hulda Björg Hannesdóttir, fyrirliði Þórs/KA, var ekki með í kvöld vegna meiðsla. Hún er þrautreynd þrátt fyrir að vera nýorðin 22 ára og vörn liðsins í kvöld var því ekki gömul! Unnur Stefánsdóttir hægri bakvörður er 18 ára, miðverðir voru hin tvítuga Arna Eiríksdóttir og Iðunn Rán Gunnarsdóttir, nýorðin 17 ára, sem kom inn í liðið fyrir Huldu Björg. Jakobína Hjörvarsdóttir vinstri bakvörður er nýorðin 18 ára, en býr þrátt fyrir það yfir töluverðri reynslu, á 32 leiki að baki í efstu deild en er tiltölulega nýkomin í liðið á ný eftir langt hlé vegna slæmra meiðsla.

Fleiri ungir leikmenn eru í Þór/KA: á miðjunni var m.a. Kimberly Dóra Hjálmarsdóttir, sem verður 17 ára síðar í þessum mánuði og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, sem leysti Kimberley af þegar 20 mín. voru eftir, er 18 ára. Þá er María Catharina Ólafsdóttir Gros 19 ára.

_ _ _

ÍBV KOMST ÞRISVAR YFIR
Kristín Erna Sigurlásdóttir gerði tvö mörk fyrir ÍBV í kvöld, kom liðinu í 1:0 og 3:2. Margrét Árnadóttir er hér, til vinstri, í baráttu um boltann við Kristínu Ernu í kvöld.

_ _ _

GLÆSILEGT JÖFNUNARMARK
Sandra María Jessen jafnaði 2:2 með stórglæsilegu marki á 67. mínútu. Hún fékk boltann rétt utan vítateigs, lék á varnarmenn og sendi boltann efst í hægra hornið með vinstri fæti. Hér hefur hleypt af, boltinn fer í hornið og Stelpurnar okkar fagna innilega.

_ _ _

NEI!
Tiffany McCarty, fyrir miðri mynd, skallaði boltann í mark ÍBV eftir glæsilega fyrirgjöf Unnar Stefánsdóttir á 84. mínútu. Andartak héldu leikmenn Þórs/KA og stuðningsmenn að hún hefði jafnað 3:3, en flagg aðstoðardómarans fór á loft þar sem Tiffany var í rangstöðu þegar boltanum var spyrnt til hennar. Margrét Árnadóttir og Sandra María Jessen trúa vart sínum eigin augum.

_ _ _

ÞRIÐJA JÖFNUNARMARKIÐ!
Tiffany var ekki lengi að hrista af sér vonbrigðin yfir því að hafa ekki jafnað; aðeins mínútu síðar komst hún af harðfylgi upp að vítateig hægra megin og sendi inn á markteiginn þar sem Sandra María Jessen var illa dekkuð og skoraði með skalla.