Fara í efni
KA

Fjögur KA-mörk og sigur á Keflvíkingum

Hallgrímur Mar Steingrímsson skorar öðru sinni í dag, fjórða mark KA í sigrinum á liði Keflavíkur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann Kefla­vík 4:2 á heimavelli í dag í fyrstu umferð neðri hluta Bestu deild­ar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í knatt­spyrnu. KA-menn léku vel í fyrri hálfleik og þá var enga bikarþynnku að sjá á liðinu, en frammistaðan í þeim seinni var hins vegar ekki til útflutnings. Ef til vill er ekki auðvelt að gíra sig upp í leik sem skiptir litlu sem engu máli. 

KA-strákarnir settu í efsta gír strax í byrjun, Jakob Snær Árnason kom þeim í 1:0 á þriðju mínútu og Hallgrímur Mar Steingrímsson bætti marki við á sjöttu mín.

Eftir rúmlega stundarfjórðung minnkuðu gestirnir muninn þegar Ísak Daði Ívarsson skoraði en fljótlega var munurinn orðinn tvö mörk á ný eftir að Ásgeir Sigurgeirsson þrumaði boltanum í Keflavíkurmarkið. 

Nacho Heras skoraði fyrir Keflvíkinga á annarri mínútu seinni hálfleiks og gestirnir gerðu allt hvað þeir gátu til að skora meira, því þeir eru í vondum málum í neðsta sætinu; róa lífróður í deildinni. Ekki tókst þeim að skora þriðja sinni en Hallgrímur Mar sem gerði hins vegar annað mark sitt og fjórða mark KA rétt fyrir leikslok. 

Myndasaga í fyrramálið

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ