Fara í efni
KA

Fjögur KA-mörk og öruggur sigur á Fylki

Harley Willard, til vinstri, gerði tvö mörk fyrir KA í Árbænum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn héldu sínu striki í dag þegar þeir sigruðu Fylki 4:2 á útivelli í neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu. Þetta var annar leikur liðsins í þessum lokahluta deildarinnar, þann fyrri unnu KA-strákarnir einnig 4:2, þegar Keflvíkingar komu í heimsókn.

KA er í þægilegri stöðu, efst í keppni sex neðstu liða deildarinnar og verður þar.

Rok var og rigning meðan leikið var í Árbænum í dag. Fylkismenn færðu gestum sínum fyrsta markið á silfurfati þegar aðeins sex mínútur voru liðnar. Eftir hræðileg varnarmistök skoraði Harley Willard með þrumuskoti rétt fyrir utan vítateig.

Pétur Bjarnason jafnaði fyrir Fylki á 17. mín. þegar hann skoraði með skalla og fljótlega eftir það fékk Fylkir gott færi til að jafna þegar Benedikt Daríus Garðarsson slapp inn fyrir vörnina en Kristijan Jajalo kom á móti honum og varði; Benedikt þrumaði raunar boltanum í andlit markvarðarins sem lá óvígur eftir. Jajalo var nokkuð vankaður, stumrað var honum í langan tíma og svo fór að hann varð að yfirgefa völlinn. Steinþór Már Auðunsson leysti Jajalo af. 

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA í 2:1 eftir hálftíma leik og það mark var af dýrari gerðinni; KA fékk aukaspyrnu skammt utan vítateigs og Hallgrímur sendi boltann framhjá varnarvegg Árbæinga og efst í markhornið. Glæsilega gert.

Harley Willard gerði annað mark sitt og þriðja mark KA snemma í seinni hálfleik og Sveinn Margeir Hauksson breytti stöðunni í 4:1 rétt fyrir leikslok. Síðasta orðið átti Þóroddur Víkingsson þegar hann minnkaði muninn í 4:2 í uppbótartíma.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ.