Fara í efni
KA

Fimm leikja bann Arnars Grétarssonar stendur

Arnar Grétarsson þjálfari KA fær að líta rauða spjaldið hjá Agli Arnari Sigþórssyni dómara hins margumtalaða leiks KA og KR. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fimm leikja bann Arnars Grétarssonar, þjálfara knattspyrnuliðs KA, stendur. Áfrýjunardómstóll Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) kvað upp þann dóm í dag. Arnar fékk rautt spjald undir lok leiks við KR í Bestu deildinni á Akureyri 2. ágúst.

  • Arnar fékk sjálkrafa tveggja leikja bann þar sem þetta var í annað skipti í sumar sem hann fékk að líta rautt spjald.
  • Hann fékk tveggja leikja bann að auki vegna hegðunar eftir leik. Í skýrslu dómara leiksins er þar talað um „ógnandi hegðun“ og „særandi og móðgangi orðbragð“.
  • Arnar fékk svo eins leiks bann til viðbótar vegna atviks í KA-heimilinu daginn. Þá rak hann varadómara umrædds leiks, Svein Arnarsson, út úr húsinu og Sveinn sendi viðbótarskýrslu til KSÍ vegna þess. 

Úr skýrslu dómara

Í dómi áfrýjunardómstólsins er birtur þessi kafi úr skýrslu dómara leiks KA og KR á Akureyri 2. ágúst, Egils Arnars Sigþórssonar:

Á 90+4 mín leiksins gerði KA kröfu um að fá dæmda vítaspyrnu. Þjálfari KA, Arnar Grétarsson, mótmælti kröftuglega að ekki skyldi dæmd vítaspyrna á leikmann KR. Þegar þjálfarinn var að mótmæla gekk hann nokkra metra inn á leikvöllinn. 4ði dómari leiksins óskaði samstundis eftir því að dómarinn kæmi í tæknisvæðið og gæfi þjálfara KA rautt spjald.

Þegar dómari leiksins var á leiðinni að tæknisvæðinu notaði þjálfari KA særandi og móðgandi orðbragð gagnvart 4ða dómara og slíkt gerði hann einnig þegar dómarinn sýndi honum rauða spjaldið. Þjálfarinn fór frá tæknisvæðinu um leið og honum var sýnt spjaldið. Hann labbaði frá tæknisvæðinu aftur fyrir aðstoðardómara eitt á leið sinni að áhorfendasvæðinu. Þegar hann gekk framhjá aðstoðardómara eitt notaði hann særandi og móðgandi orðbragð gagnvart honum og dómarateyminu í heild sinni.

Eftir að leik lauk kom þjálfarinn inná völlinn og gekk rakleitt að 4ða dómara leiksins sem stóð við tæknisvæðin og hélt áfram að nota svívirðilegt og móðgandi orðbragð gagnvart honum. Því næst gekk hann að dómaranum og aðstoðardómurunum sem still höfðu sér upp á miðjum vellinum. Þar voru leikmenn og forráðamenn beggja liða að þakka fyrir sig. Þegar þjálfari KA tók í höndina á aðstoðardómara eitt þá sýndi hann af sér ógnandi hegðun gagnvart honum. Þjálfarinn hélt áfram að nota særandi og móðgandi orðbragð gagnvart 4ða dómara leiksins þegar dómarar leiksins gengu af velli.

Ekki urðu frekari orðaskipti þegar til búningsherbergja var komið eða þegar dómarar voru að yfirgefa leikstaðinn.

Afsökun

KA var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við skýrslu dómara til aga- og úrskurðarnefndar.

Eina sem KSÍ og dómarateymið fær frá KA í þessu máli er afsökunarbeiðni. Ég er búinn að ræða við Svein í tvígang og biðjast afsökunar fyrir hönd félagsins, segir í svari Sævars Péturssonar, framvæmdastjóri KA, eftir það. Þessi framkoma er ekki eitthvað sem við viljum vera þekkt fyrir og biðjum auðmjúkir afsökunar fyrir hönd félagsins. Ég er búinn að ræða þetta við þjálfarann og hans teymi og reyni að tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur. Menn mega hafa keppnisskap en þetta var skot langt yfir markið og erum við meðvituð um það og tökum á þessu máli innan hús hjá okkur.

Atvikið í KA-heimilinu

Síðan barst aga- og úrskurðarnefnd viðbótarskýrsla frá varadómaranum, Sveini Arnarssyni. Þar segir Sveinn að hann hafi verið staddur í anddyri félagsheimilis KA í hádeginu daginn eftir leik KA og KR, að aðstoða sinn sem var að mæta á knattspyrnuæfingu hjá félaginu.

Ég náði mér því næst í kaffibolla. Þjálfari karlaliðs meistaraflokks, Arnar Grétarsson, verður þess var og spyr hvað ég sé eiginlega að gera þarna og hvernig ég vogi mér að mæta á þennan stað, tjáði mér með offorsi að hann vildi mig í burtu af svæðinu. Síðan upphélt hann sama móðgandi og særandi orðbragðið í minn garð vegna leiksins deginum áður og stoð sá flaumurí um eina mínútu.

Orðaval af þessu tagi fannst mér særandi og hegðun ógnandi þar sem hann gekk mjög nálægt mér. Ég tjáði þjálfaranum að þetta væri komið gott og ætlaði mér að halda leið minni áfram. Þegar ég gekk í burtu gat ég ekki greint það orðaval sem hann hafði uppi í minn garð á meðan ég hélt áleiðis til að halda afram að aðstoða barn mitt, en heyrði að hann hélt áfram að tala til mín þar til hann hvarf sjónum.

Afsökunarbeiðni til þyngingar refsingar?

Eftir að skýrsla Sveins barst aga- og úrskurðarnefnd var KA gefinn kostur á að bregðast við henni en svar barst ekki áður en nefndin úrskurðaði Arnar Grétarsson í fimm leikja bann. Eftir það barst hins vegar áfrýjun KA þar sem athugasemd var gerð við að tillit væri tekið til  viðbótarskýrslu varadómarans. Krafa félagsins sé að ekki sé unnt að dæma leikbann á grundvelli hennar.

Þá segir í áfrýjun KA:

Öllu framangreindu til viðbótar byggir svo félagið á því að lengd leikbannsins sé í engu samræmi við ákvörðun viðurlaga í öðrum málum. Þannig var aðeins viku áður þjálfari dæmdur í sams konar þriggja leikja bann fyrir að gera slíkan aðsúg og sýna slíka ógnandi framkomu í garð dómara að dómari þurfti ígildi lögreglufylgdar af leikstað eftir leik. Verður háttsemi þjálfara KA bersýnilega ekki jafnað til hennar.

Ef lesin er dómsniðurstaða er lesin þá má meta það þannig að afsökunarbeiðni félagsins um framferði þjálfarans sé notuð til þyngingar refsingar, þar sem vísað er í að teknu tilliti til afsökunarbeðni KA ásamt öðrum fyrirliggjandi gögnum sé horft til þyngingar dóms. Það er þá í fyrsta skipti sem afsökunarbeiðni og það að menn viðurkenni sök vinni gegn félaginu og hugsanlega hækki þá sekt sem félagið fær á endanum.

Mótmælir KA því harðlega, enda eigi bæði afsökunarbeiðni félagsins og þjálfarans að leiða til refsilækkunar.

Er þess krafist að agabann Arnars verði stytt úr fimm leikjum og verði að hámarki tveir leikir. Áfrýjunardómstóll KSÍ varð ekki við kröfu KA og staðfesti úrskurð aga- og úrskurðarnefndar sem fyrr segir.

Hér má lesa dóm áfrýjunardómstóls KSÍ frá því í dag í heild.

Grátlegt tap KA fyrir KR – MYNDIR

Biðst afsökunar – rak fjórða dómarann út úr KA-heimilinu

Ekki kurteisishjal Arnars, segir Sveinn