Fara í efni
KA

Fimm efnilegar stelpur skrifa undir samning

Þessar undirrituðu samninga við Þór/KA í dag. Frá vinstri: Kolfinna Eik Elínardóttir, Amalía Árnadóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir, Bríet Jóhannsdóttir og Emelía Ósk Kruger

Fimm ungar knattspyrnukonur, 16 og 17 ára, hafa undirritað sína fyrstu leikmannasamninga við Þór/KA eða eru að endurnýja samninga sem voru runnir út. Greint er frá þessu á vef Þórs/KA í dag.

Þær sem núna hafa undirritað sína fyrstu samninga við Þór/KA eru Bríet Jóhannsdóttir (2006), Emelía Ósk Kruger (2006) og Kolfinna Eik Elínardóttir (2007), en auk þeirra skrifuðu Amalía Árnadóttir (2006) og Sonja Björg Sigurðardóttir (2006) undir nýja samninga við félagið. Amalía og Sonja Björg skrifuðu fyrst undir samninga við félagið í apríl í fyrra og voru síðan lánaðar til Völsungs.

„Þessar undirskriftir sem nú hafa farið fram sýna vel þann mikla efnivið og þann fjölda af góðum leikmönnum sem koma upp úr starfi yngri flokka félaganna á hverju einasta ári,“ segir á vef liðsins.

Nokkrar af þeim sem nú undirrita samninga voru lykilmenn í liði 3. flokks Þórs/KA þegar liðið vann Íslands- og bikarmeistaratitla í fyrra. Að sama skapi eru þær einnig orðnar lykilmenn í liði Þórs/KA/Völsungs í 2. flokki U20 á yngsta ári í flokknum, en liðið er á toppi A-deildarinnar þegar mótið er hálfnað.

Að lokinni undirritun í dag. Frá vinstri: Kristín Elva Viðarsdóttir, úr stjórn Þórs/KA, Kolfinna Eik Elínardóttir, Amalía Árnadóttir, Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, Sonja Björg Sigurðardóttir, Bríet Jóhannsdóttir, Emelía Ósk Kruger, Steinunn Heba Finnsdóttir, úr stjórn Þórs/KA, og Pétur Heiðar Kristjánsson, aðstoðarþjálfari meistaraflokks og þjálfari 2. flokks U20.

Haft er eftir Söndru Maríu Jessen, fyrirliða Þórs/KA, að leikmennirnir fimm séu mikilvægir fyrir Þór/KA, ekki aðeins í framtíðinni heldur nú þegar.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, segir þessar undirskriftir mikilvægar fyrir félagið og leikmennina sjálfa. „Margar ungar og mjög efnilegar knattspyrnukonur hafa komið við sögu í leikjum okkar í Bestu deildinni í sumar. Við höfum mikla trú á hæfileikum þeirra og getu og þær hafa unnið sér inn þessi tækifæri með Þór/KA,“ segir Jóhann Kristinn um þessa ungu leikmenn.

„Við höfum líka mikla trú á því sem við erum að gera hjá Þór/KA sem félagi, alveg frá 3. flokki og upp í meistaraflokk. Það er mikils virði upp á framtíðina að þær fái þessi tækifæri, finni að við treystum þeim og ætlum þeim stærri hlutverk í framtíðinni. Við hjá Þór/KA erum að vinna eftir ákveðinni framtíðarsýn í þessum efnum og trúum á það verkefni. Það er örugglega ekki algengt að félag í fremstu röð á landinu tefli fram jafn mörgum heimaöldum leikmönnum og við gerum hjá Þór/KA. Af því erum við stolt og ætlum að halda áfram á þessari braut. Við viljum líka sýna fólkinu okkar hér fyrir norðan og um allt land, fólkinu sem styður við bakið á okkur, samstarfsfyrirtækjunum og okkur sjálfum að okkur er alvara með það að vilja eiga lið í fremstu röð og festa okkur í sessi í toppbaráttu í Bestu deildinni.“

Smellið hér til að sjá alla fréttina á vef Þórs/KA