Fara í efni
KA

Félagaskipti Nökkva staðfest

Nökkvi Þeyr Þórisson hefur verið seldur frá belgíska félaginu Beerschot til bandaríska félagsins St. Louis sem spilar í MLS atvinnumannadeildinni vestra, eins og spáð var í fréttum í gær. Bandaríska félagið hefur þó ekki enn tilkynnt Nökkva Þey sem nýjan liðsmann sinn á vefmiðlum sínum.

Í fréttum í gær kom fram að kaupverðið væri í kringum eina milljón evra, eða yfir 147 milljónir króna, en í frétt Gazet van Antwerpen í morgun er sagt frá því að bandaríska félaginu hafi þótt það heldur hátt og því hafi staðið yfir samningaviðræður um verðið. Á endanum hafi fengist niðurstaða og fullyrt er að með bónusum fari það ekki niður fyrir 750 þúsund evrur, eða um 110 milljónir króna. Með þessum félagaskiptum verður Nökkvi dýrasti leikmaður sem belgíska félagið hefur selt. Nökkvi hefur nú þegar kvatt félaga sína hjá Beerschot og mun ekki æfa meira með félaginu.

Búist er við að Nökkvi haldi heim til Íslands í dag til að ganga frá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna áður en hann fer vestur um haf til nýja félagsins.