Fara í efni
KA

Farsældin byggist á því sem við gefum

Hverjir eru bestir? Ómar Ingi Magnússon, íþróttamaður ársins, og Haraldur Ingólfsson, íþróttaeldhugi ársins, í hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í kvöld.

Haraldur Ingólfsson er fyrsti Íþróttaeldhugi ársins úr röðum sjálfboðaliða hér á landi eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í kvöld! Íþrótta- og ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) stóð fyrir þessum verðlaunum í fyrsta skipti í ár og var niðurstaðan tilkynnt í hófi SÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í kvöld.

„Ég er tilfinningasamur og klökknaði þegar þetta var tilkynnt,“ sagði Haraldur í samtali við Akureyri.net í kvöld. „Ég bara skalf og táraðist!“ bætti hann við.

„Ég hugsaði um það í allan dag, og reyndar alveg síðan tilkynnt var að ég væri einn af þremur sem kæmi til greina, hvernig á því stæði að ég hefði verið tilnefndur,“ sagði Haraldur í kvöld og virtist enn hálf undrandi. Valið kemur þó varla mörgum á óvart sem fylgjast grannt með íþróttalífinu á Akureyri enda kemur Halli víða við.

Mikill heiður 

„Þegar maður er einn af þremur sem koma til greina gerir maður sér auðvitað grein fyrir því að möguleiki er á því að verða fyrir valinu. Mér finnst mikill heiður að vera tilnefndur ásamt Friðriki Þór Óskarssyni og Þóru Guðrúnu Gunnarsdóttur, sem bæði hafa unnið í áratugi fyrir félög sín og sérsambönd, og get sagt í einlægni að niðurstaðan kom mér á óvart,“ sagði Haraldur.

„Mér fannst mjög gaman að vera á þessari samkomu í kvöld; að hitta forkólfa ýmissa félaga og íþróttasambanda, og forseta Íslands. Öll óskuðu mér til hamingju og mér fannst gott að heyra að þeim finnst, eins og mér, sérstaklega ánægjulegt að þessi verðlaun eða viðurkenning skuli vera  orðin að veruleika. Ég er einmitt fyrst og fremst ánægður með það, burtséð frá því hverjir voru tilnefndir eða hver hlaut viðurkenninguna, vegna þess að sjálfboðaliðinn er í raun ómissandi. Ég verð að nefna í því sambandi að ég var mjög stoltur að Covid árið 2020 valdi Íþróttafélagið Þór sjálfboðaliðann sem mann ársins hjá félaginu í stað þess að kjósa íþróttamann- og konu eins og venjulega. Mér fannst það frábær hugmynd.“

Haraldur Ingólfsson ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í kvöld.

Mikilvægi sjálfboðaliða

Haraldur segir ekki vanþörf á að vekja athygli á mikilvægi sjálfboðaliða því sífellt virðist erfiðara að fá fólk til starfa. „Mér finnst mikilvægast í þessu að það sé verið að vekja athygli á störfum sjálfboðaliða og mikilvægi þeirra, ekki að það sé einhver einn einstaklingur eða þrír sem eru teknir út fyrir sviga og einn verðlaunaður sérstaklega,“ sagði hann. „Mér hefur líka verið hugsað til þess að þótt íþróttir séu mikilvægar sem samfélagslegur þáttur þá finnst mér sjálfboðaliðastörf fyrir íþróttafélög hálfpartinn blikna við hlið björgunarsveitafólksins, fólks sem stundar hjálparstarf af hvers kyns tagi eins og að gefa fátækum að borða, styðja við fjölskyldur í fjárhagsvandræðum, að ég tali nú ekki um það fólk sem hættir sér inn á átakasvæði til að hjálpa öðrum í neyð.“

Margir vita að Haraldur ver ótrúlega miklum tíma í starf fyrir Þór og Þór/KA. 

„Það sem knýr mig áfram er ekki að þetta starf sé gefandi – sem það vissulega er – heldur hef ég áttað mig á því í gegnum árin að tíma mínum er betur varið í að gera annað fólk að betra íþróttafólki, styðja það og hjálpa eins og ég get, fekar en að vera að rembast við að vera íþróttamaður sjálfur, eins og ég hef gert á ýmsum vettvangi í gegnum tíðina, til dæmis í frjálsum íþróttum, fótbolta, handbolta eða körfubolta sem unglingur og svo í krullu og pílukasti á efri árum. Ég hef einfaldlega áttað mig á að ég geri samfélaginu meira gagn með því að hjálpa öðrum en að þykjast sjálfur vera íþróttamaður!“ segir hann kankvís.

Konum sé gert hærra undir höfði

Haraldur hefur starfað fyrir flestar deildir Þórs og aðalstjórn félagsins, en mest af öllu þó að líkindum fyrir kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu.

„Ég hef líka lagt sérstaka áherslu á Þór/KA og fyrir því eru nokkrar ástæður. Konur hafa um árabil átt undir högg að sækja hvað varðar fjármagn og fjölmargt annað í umhverfi íþróttafólks. Þó það felist í því mótsögn má segja að konur hafi nauðugar verið í sjálfboðaliðastörfum í þúsundir ára og mér finnst þær bara eiga betra skilið. Þær eiga sama rétt og karlar og ég vil leggja mitt af mörkum til að gera konum í íþróttum hærra undir höfði. Sagan sýnir líka, og ekki í svo fjarlægri fortíð, að það hefur oft verið farið illa með þær. Það blæs í mig eldmóði sem kannski heldur mér helst gangandi þegar verkefnin virðast óþrjótandi og óyfirstíganleg.“

Hann segir það ef til vill hljóma hallærislega, „en ég segi stundum við stelpurnar í Þór/KA, þegar laun berast í tal: Þegar þið brosið fæ ég útborgað.“

Þá hefur hann á orði að öfugt við það sem mætti ætla, miðað við að hann er oft kynnir á leikjum og dálítið í „sviðsljósinu“, þá sé hann ekki athyglissjúkur! „Mér finnst best og skemmtilegast að vinna „óséðu“ verkin, nauðsynleg og jafnvel ónauðsynleg verk sem fæstir taka eftir – nema þá ef þau eru ekki unnin ...“

_ _ _

SJÁLFBOÐASTARF

Í viðtali við RÚV eftir að hann hlaut viðurkenninguna í kvöld nefndi Haraldur þrjár tilvitnanir sem eru honum ofarlega í huga og ítrekaði, í spjalli við Akureyri.net, hve mikið honum þætti til þeirra koma.

  • Sjálfboðavinna er hin mesta og besta æfing í lýðræði. Ég kýs í kosningum á einhverra ára fresti, en þegar ég vinn í sjálfboðavinnu kýs ég daglega um það í hvernig samfélagi ég vil búa – Óþekktur höfundur
  • Afkoma okkar byggist á því sem við fáum, en farsældin á því sem við gefum – Winston Churchill
  • Besta leiðin til að finna sjálfan mig er að týna mér í þjónustu annarra – Mahatma Gandi