Fara í efni
KA

Evrópuleikur KA verður á heimavelli Fram

Mynd af vef KA: Þórir Tryggvason

Knattspyrnudeild KA hefur samið við Fram um að leikur félagsins í fyrstu umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í sumar verða á heimavelli Reykjavíkurfélagsins í Úlfarsárdal. Greint er frá þessu á heimasíðu KA í morgun.

Fréttin á heimasíðu KA er svohljóðandi:

Sem kunnugt er mun knattspyrnulið KA í meistaraflokki karla taka þátt í forkeppni Sambandsdeildar UEFA í sumar. Er þetta í fyrsta skipti í 20 ár sem liðið tekur þátt í Evrópukeppni en tvívegis áður hefur KA tekið þátt, árin 1990 og 2003. Í bæði skiptin spilaði KA heimaleiki sína á heimavelli sínum, Akureyrarvelli.

Að þessu sinni getur félagið ekki spilað heimaleiki sína á Greifavellinum, heimavelli KA, sökum þess að hann uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til leikja af þessari stærðargráðu. Nú standa yfir framkvæmdir á vegum Akureyrarbæjar við gerð nýs keppnisvallar, yfirbyggðar stúku og félagsaðstöðu á KA svæðinu. Munu þessi nýju mannvirki uppfylla fyrrgreindar kröfur. En þar til hinn nýji völlur verður tilbúinn verður KA að finna löglegan völl til að spila heimaleiki sína.

„Við höfum átt í viðræðum við nokkur lið um að fá að nýta heimavelli þeirra fyrir leik okkar í Evrópukeppninni í sumar,“ segir Hjörvar Maronsson formaður knattspyrnudeildar KA. „Það hafa í raun ekki margir vellir komið til greina. Okkur hefur sérstaklega verið litið til gervigrasvalla þar sem erfiðara er að bæta miklu aukaálagi á grasvelli sem nú þegar eru uppteknir fyrir leiki sumarsins. Samkomulag er nú í höfn um að við spilum heimaleik okkar í fyrstu umferð forkeppninnar á heimavelli Fram í Úlfarsárdal. Ég vil þakka Fram hversu vel þau tóku í beiðni okkar og sérstaklega hversu fagleg þau voru í allri sinni nálgun á verkefninu. Ég vona að KA fólk hvaðanæva af landinu fjölmenni í Úlfarsárdal í sumar og hvetji okkur menn áfram og hjálpi okkur þannig að ná markmiði okkar sem er að komast áfram í næstu umferðir í keppninni,“ segir Hjörvar að lokum.

Fyrsta umferðin fer fram dagana 13. og 20. júlí og kemur í ljós 20. júní hver andstæðingur KA verður og á hvorri dagsetningunni heimaleikur KA mun fara fram.