Fara í efni
KA

Evrópukeppnin: KA fer til Wales

Daníel Hafsteinsson og félagar í KA taka þátt í Sambandsdeild Evrópukeppninnar í knattspyrnu í sumar. Faðir Daníels, Hafsteinn Jakobsson, gerði fyrsta mark KA í Evrópukeppninni á sínum tíma. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn drógust gegn liði Conna­h's Quay Nomads frá Wales í fyrstu umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópukeppninnar í knattspyrnu. Dregið var í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, í Nyon í Sviss rétt í þessu.

Fyrri leikur KA og Conna­h's Quay Nomads verður fimmtudaginn 13. júlí á Framvellinum í Úlfarsárdal í Reykjavík og sá síðari fimmtudaginn 20. júlí ytra.

Lið Nomads er frá bænum Conna­h's Quay nyrst í Wales, skammt sunnan við Liverpool. Heimavöllur félagsins stenst reyndar ekki kröfur UEFA svo hvorugur heimaleikurinn í þessari rimmu fer fram á heimavelli félaganna. KA fer því ekki til Wales – þótt svo segi í fyrirsögninni! – heldur mætast liðin í bænum Oswestry í Englandi, að því er segir á Facebook síðu KA. Oswestry er rétt handan landamæranna.