Fara í efni
KA

„Erum drullusvekktir með stöðuna“

Elvira Dragemark hefur þjálfað hjá Júdódeild KA í vetur en samningur hennar verður ekki endurnýjaður þar sem deildin hefur ekki bolmagn til að greiða laun hennar þar sem júdóiðkendum hefur ekki fjölgað í samræmi við þær væntingar sem stjórnin hafði.

Júdódeild KA hefur verið rekin með tapi í vetur og fjárhagsstaða deildarinnar leyfir ekki endurnýjun á samningi við aðaljúdóþjálfara félagsins. Stjórnin leitar nú lausna til að rétta stöðuna af og halda starfssemi deildarinnar gangandi næsta vetur.

„Við erum drullusvekktir með stöðuna. Júdóiðkendur eru nú 31 talsins en voru fyrir Covid á bilinu 70-120. Það er auðvitað ekki alltaf hægt að kenna Covid um alla hluti en bardagaíþróttir komu almennt illa undan Covid þar sem nálægðin er mikil í þessum íþróttagreinum. Margir júdóiðkendur hafa einfaldlega ekki skilað sér tilbaka,“ segir Sigmundur Magnússon formaður júdódeildar KA og staðfestir að deildin sé nú rekin með verulegum halla.

Júdódeild KA kom illa undan Covid. Margir iðkendur duttu þá úr deildinni og hafa ekki skilað sér tilbaka.

Vonuðu að félögum myndi fjölga

„Við ætluðum að ná vopnum okkar tilbaka á einu ári og gerðum okkur væntingar um að félögum myndi fjölga í vetur en því miður misreiknuðum við okkur. Það bættust ekki nægilega margir félagar við deildina í vetur, það tekur greinilega lengri tíma að vinna þetta upp.“ Vegna stöðunnar hefur stjórnin ákveðið að samningur við aðalþjálfara félagsins verði ekki endurnýjaður þegar hann rennur út í næsta mánuði en hin sænska Elvira Dragemark hefur sinnt starfinu í vetur. „Það er auðvitað bagalegt að hafa fengið hana hingað í vinnu en geta ekki haldið henni áfram á þeim kjörum sem við sömdum um. Við höfum fram til þessu aðeins greitt fyrir kennslustundir en gerðum samning við hana á öðrum formerkjum og það hefur reynst deildinni of dýrt miðað við fjölda iðkenda. Við getum einfaldlega ekki endurnýjað samninginn og tekið aftur sjéns á því að það fjölgi í deildinni, við höfum ekki bolmagn í meiri taprekstur.“

Leitað lausna

Júdódeildin hefur reynt að laða til sín nýjar iðkendur í vetur með keyptum auglýsingum og þá hefur einnig verið boðið upp á júdókynningar í nokkrum skólum en það hefur lítið hjálpað. Elvira hefur verið í 25% starfi hjá deildinni en ofan á laun hennar hefur einnig bæst húsaleigustyrkur, akstur og annað. „ Aðalinnkoma deildarinnar eru félagsgjöld, en eins fær deildin styrki frá ÍBA og lottótekjur. Þetta hefur því miður ekki dugað og deildin er því rekin með tapi,“ segir Sigmundur. Aðspurður um framhaldið þá segir hann að deildin sé ekki að leggjast af þrátt fyrir slæma stöðu í augnablikinu. „Við munum halda deildinni áfram úti og erum á fullu að leita lausna enda er ég bjartsýnn á það að deildin rétti úr kútnum, það tekur bara lengri tíma en við áætluðum. Elvira hefur verið að byggja upp þjálfara í okkar eigin hópi í vetur og mér finnst líklegt að einhver heimamaður taki þjálfunina að sér á tímakaupi, það hefur verið gert þannig áður og reynst vel. Þetta er allt í vinnslu og kemur vonandi fljótlega í ljós.“