Fara í efni
KA

Er þetta Þorri eða er Nökkvi kominn heim?

Hvor er hvað? Svar: Til vinstri fagnar Nökkvi Þeyr marki gegn ÍA í fyrrasumar og hægra megin er Þorri Mar eftir að hann skoraði á móti ÍBV á laugardaginn. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Bakvörðurinn Þorri Mar Þórisson hefur skorað í báðum leikjum KA á Íslandsmótinu í fótbolta í vor, fyrst jöfnunarmarkið (1:1) gegn KR og síðan þriðja og síðasta markið í 3:0 sigri á ÍBV á laugardaginn.

Haft var á orði í gamansömum tón á KA-vellinum á laugardaginn hvort leikmaður númer 22 hjá heimamönnum væri örugglega bakvörðurinn Þorri Mar. Getur verið að varnarmaðurinn sé orðinn svona markheppinn? Er þetta hugsanlega Nökkvi Þeyr, tvíburabróðir hans?

„Mjög góð spurning,“ sagði Hugrún Felixdóttir, móðir bræðranna, og hló þegar Akureyri.net ræddi við hana að leik loknum.

Mörgum er í fersku minni að Nökkvi Þeyr varð markakóngur Bestu deildarinnar á síðasta ári þegar hann fór á kostum með KA. Nökkvi gerði 17 mörk áður en hann samdi við belgíska félagið Beerschot.

Tvíburarnir hafa allt verið líkir en sennilega aldrei sem nú; Þorri skartar nefnilega mun styttra hári en í fyrra og notar hvítt hárband, eins og bróðir hans gerði þá. Er því nema von að spurt sé!

Þess má geta til gamans að Nökkvi Þeyr skoraði einnig um helgina, í 4:0 sigri Beerschot í næst efstu deild í Belgíu.

Nökkvi Þeyr Þórisson fagnar einu 17 marka sinni með KA á Íslandsmótinu í fyrrasumar, á heimavelli gegn ÍA 14. ágúst. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þorri Mar Þórisson fagnar eftir að hann skoraði gegn ÍBV á laugardag, þriðja markið í 3:0 sigri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson