Fara í efni
KA

Engin frá KA með blaklandsliðinu

Fjórfalt meistaralið KA-kvenna í blaki. Mynd: Þórir Tryggva

Blaklandslið kvenna er á leið til Lúxemborgar á morgun þar sem liðið tekur þátt í Smáþjóðamóti SCA. Athygli vekur að með liðinu fer engin úr fjórföldu meistaraliði KA frá nýafstaðinni leiktíð. Eftir því sem Akureyri.net kemst næst er kostnaður við landsliðsferðir helsti þröskuldurinn hjá mörgum leikmönnum, ekki aðeins úr KA.

Kostnaðurinn er þröskuldur

Aðspurð svaraði Katrín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Blaksambands Íslands, því til að nokkrum konum úr KA hafi verið boðið að taka þátt í þessu verkefni en að þær hafi því miður allar afþakkað. KA eigi sannarlega sterka leikmenn sem eigi vel heima í landsliðinu, en hún geti þó ekki tjáð sig um ástæður einstakra leikmanna.

Umræður hafa skapast á samfélagsmiðlum í kringum fréttir af vali á landsliðinu og þátttöku þess í mótinu og þar dregur enginn í efa að sterkir leikmenn úr KA-liðinu eigi erindi í landsliðið enda vann það titlana fjóra með aðeins einn erlendan leikmann innanborðs. Meðal þeirra sem hafa tjáð sig eru Valgeir Bergmann, varaformaður Blaksambandsins, sem vakti máls á fjarveru KA-kvenna, og Miguel Mateo, þjálfari kvennaliðs KA. Sá síðarnefndi segir umbúðalaust að aðalástæða þess að KA-konur fari ekki í þetta verkefni sé hár kostnaður, málið snúist ekki um KA því margir aðrir leikmenn hafi einnig afþakkað boð um þátttöku.

Sami þjálfari hjá landsliðinu og Aftureldingu

Þjálfari A-landsliðs kvenna í blaki er Borja Vincent Gonzales, en hann er jafntramt aðalþjálfari liðs Aftureldingar sem mætti KA í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn á dögunum. Ásamt íslenska liðinu taka lið Lúxemborgar, Írlands, Norður-Írlands, Skotlands og Möltu þátt í mótinu. Spilað verður í tveimur riðlum og mótherjar Íslands í B-riðli eru Norður-Írland og Skotland. Mótið stendur frá föstudegi fram á sunnudag.


A-landsliðshópur kvenna í Blaki sem keppir á mótinu í Lúxemborg um helgina. Mynd af Facebook-síðu BLÍ.