Fara í efni
KA

Engar hreyfimyndir og ekki blikkandi ljós

Auglýsingaskiltið á horni Þingvallastrætis og Dalsbrautar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Skipulagsráð Akureyrar hefur samþykkt að leyfa Knattspyrnufélagi Akureyrar að setja upp LED skjái KA-svæðinu, með ákveðnum skilyrðum.

Skjáirnir verða í norðvestur horni félagssvæðisins, á mótum Þingvallastrætis og Dalsbrautar og koma í stað flettiskilta sem þar eru. Gert er ráð fyrir tveimur 22 fermetra skjáum.

„Í ljósi þess að um endurnýjun á eldra skilti er að ræða samþykkir meirihluti skipulagsráðs að settir verði upp LED skjáir í stað núverandi flettiskilta með þeim skilyrðum að ekki verði um hreyfimyndir eða blikkandi ljós að ræða og að minnsta kosti líði ein mínúta á milli auglýsinga,“ segir í fundargerð.

Arnfríður Kjartansdóttir, fulltrúi VG, lét bóka að hún væri á móti því að settir verði upp LED skjáir í stað núverandi flettiskilta „þar sem í samþykkt um skilti og auglýsingar, gr. 8.4.4, kemur fram að óheimilt sé að vera með áberandi ljósaskilti með blikkandi ljósum eða hreyfimyndum sem snúa að stofn- eða tengibrautum.“