Fara í efni
KA

Elmar Dan kemur inn í þjálfarateymið hjá KA

Hallgrímur Jónasson aðalþjálfari KA, Steingrímur Örn Eiðsson aðstoðarþjálfari og Elmar Dan Sigþórsson, sem kemur nú inn í þjálfarateymið. Mynd af vef KA.

Elmar Dan Sigþórsson kemur inn í þjálfarateymi meistaraflokks KA í knattspyrnu. Þetta var tilkynnt á heimasíðu félagsins í dag.

„Elmar er uppalinn hjá KA og steig ungur sín fyrstu skref í meistaraflokki sumarið 2001 er KA tryggði sér sæti í deild þeirra bestu. Hann var í kjölfarið lykilmaður í liðinu tímabilin 2002-2004 þar sem KA lék í efstu deild. Í kjölfarið lék hann með Víking Reykjavík og Fjarðabyggð en sneri aftur heim í KA fyrir sumarið 2007,“ segir í fréttinni.

Elmar spilaði 116 leiki fyrir KA og skoraði 12 mörk, á árunum 2001 til 2012 þar sem hann var meðal annars fyrirliði.

Elmar Dan með fyrirliðabandið í leik með KA sumarið 2012.

Árið 2009 gekk hann í raðir norska liðsins Tornado Måløy og fór síðar til Førde, einnig í Noregi, áður en hann lauk ferlinum með KA liðinu sumarið 2012.

„Undanfarin ár hefur verið öflugur stjórnarmaður í knattspyrnudeild KA. Í vetur hefur Elmar setið þjálfaranámskeið KSÍ og mun hann halda áfram að mennta sig á því sviði,“ segir í fréttinni.