Fara í efni
KA

Góð leikstjórn – léku langt umfram aldur

Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þjálfari og fyrirliði Þórs/KA voru vitaskuld himinlifandi eftir góðan 1:0 sigur á Stjörnunni í Garðabæ í kvöld. Sigur og þrjú stig í fyrstu umferð Bestu deildar Íslandsmótsins er óskabyrjun og frábært veganesti inn í leiktíðina að fara með þrjú stig í farteskinu af mjög erfiðum útivelli, gegn liði sem spáð er velgengni.

„Þetta var fullkomin byrjun á mótinu; að skora, að fá ekki á sig mark og fá þrjú stig,“ voru fyrstu viðbrögð Jóhanns Kristins Gunnarssonar, þjálfara Þórs/KA, í spjalli við Akureyri.net í Garðabænum. „Ég vil hrósa leikmönnum mínum fyrir leikstjórnina; stelpurnar stýrðu í raun leiknum og hraðanum stærstan hluta leiksins hér á þessum erfiða útivelli. Þrátt fyrir ungan aldur hjá stórum hluta liðsins var þetta til fyrirmyndar. Stelpurnar voru að spila langt umfram aldur að þessu leyti,“ sagði Jóhann.

Sandra María Jessen tryggði Þór/KA stigin þrjú með eina marki leiksins. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þjálfarinn taldi sigurinn fyllilega verðskuldaðan. „Já, þetta var algjörlega verðskuldað. Við héldum hreinu, gerðum gott mark og hefðum meira að segja getið skorað meira. Og við fengum ekki mörg færi á okkur,“ sagði Jóhann og bætti við: „Það er ekki hægt að biðja um betri byrjun á þessu móti.“

Slær góðan tón!

„Ég er fyrst og fremst rosalega stolt af liðinu og hópnum,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, eftir sigurinn. „Þetta var mikill og góður iðnaðarsigur sem við unnum fyrir honum með baráttu og góðri liðsheild. Þetta var kannski ekki besti fótboltaleikur sem við höfum spilað en við lögðum okkar 110% fram og það skilaði sigrinum,“ sagði fyrirliðinn.

„Að fara burt úr Garðabænum með þrjú stig slær góðan tón fyrir sumarið! Það verður gaman að búa sig undir næsta leik og gera líka vel þá. Ég held að hópurinn sé á mjög góðum stað.“

Óskabyrjun Þórs/KA í snjókomunni

  • Næsti leikur Þórs/KA í Bestu deildinni er á heimavelli næsta mánudag, 1. maí, gegn liði Keflavíkur. Leikurinn verður á Greifavelli KA og hefst klukkan 16.00.