Fara í efni
KA

Ekki dagur akureyrskra knattspyrnumanna

Rodrigo Gomes skoraði fyrir KA í dag en það dugði ekki til. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þrjú af knattspyrnuliðum bæjarins léku í Lengjubikarkeppninni í dag og urðu öll að játa sig sigruð. KA er úr leik í karlaflokki, Þór/KA á ekki lengur möguleika á að komast upp úr riðli og Hamrarnir steinlágu fyrir Fjarðabyggð/Hetti/Leikni.

Breiðablik – KA 2:1

  • Blikarnir byrjuðu miklu betur og Jason Daði Svanþórsson kom þeim yfir á 38. mínútu. Ekki liðu nema tvær mínútur þar til Blikar skoruðu aftur – þar var Viktor Karl Einarsson að verki. Strax í byrjun seinni hálfleiks minnkaði Rodrigo Gomes muninn fyrir KA-menn eftir hornspyrnu Hallgríms Mar Steingrímssonar og þrátt fyrir afbragðs frammistöðu í seinni hálfleiknum, og mjög góð marktækifæri, náðu KA-menn ekki að jafna.

Fylkir – Þór/KA 2:1

  • Þór/KA er fjórum stigum á eftir Breiðabliki og Fylki þegar ein umferð er eftir í riðli 2 í A-deild Lengjubikarkeppni kvenna. Tvö lið fara áfram í undanúrslitin þannig að draumurinn er úti þetta árið. Bryndís Arna Níelsdóttir og Þórdís Elva Ágústsdóttir skoruðu fyrir Fylki seint í fyrri hálfleik, Hulda Ósk Jónsdóttir minnkaði munin snemma í þeim seinni en nær komust leikmenn Þórs/KA ekki.

Hamrarnir – Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir 0:4

  • Þetta var fyrsti leikur Hamrastelpnanna í 2. riðli C-deildar.