Fara í efni
KA

Ekkert fær stöðvað Blikana – MYNDIR

Kristijan Jajalo var frábær í markinu hjá KA í dag. Varði nokkrum sinnum mjög vel en hér horfir hann á eftir boltanum sem smaug naumlega framhjá stönginni eftir þrumuskot Höskuldar Gunnlaugssonar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Breiðablik er nánast öruggt með Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu eftir 2:1 sigur á KA á Akureyri eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag.

KA er öruggt um sæti í Evrópukeppni næsta sumar en möguleikinn Íslandsmeistaratign - sem enn var tölfræðilegur - er að engu orðinn eftir tapið í dag.

_ _ _

SKAMMVINN GLEÐI
Blikinn Viktor Örn Margeirsson spyrnti knettinum í eigið mark þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum eftir fyrirgjöf Hrannars Steingrímssonar. Daníel Hafsteinsson KA-maður fagnaði af mikilli innlifun en gleðin var skammvinn. Boltinn var farinn aftur fyrir endamörk þegar Hrannar sendi fyrir markið.

_ _ _

BLIKAR TAKA FORYSTU
Eftir darraðardans í vítateig KA á 34. mín. barst boltinn út í teig þar sem Kristinn Steindórsson var einn og óvaldaður. Hann hafði góðan tíma til að leggja boltann fyrir og skoraði með hnitmiðuðu skoti í hornið fjær.

_ _ _

JAJALO FRÁBÆR
Kristijan Jajalo markvörður KA var frábær í dag. Hann varði nokkrum sinnum af stakri snilld, til dæmis á 55. mín. þegar þessar myndir voru teknar. Jason Daði Svanþórsson, sem gerði sigurmarkið undir lokin, komst í upplagt færi en Jajalo varði fast skot hans með glæsibrag.

_ _ _

KA JAFNAR
Jóhann Ingi Jónsson dómari blés í flautu sína og benti á vítapunktinn á 84. mín. þegar brotið var á Ásgeir Sigurgeirssyni fyrirliða KA. Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk það verkefni að taka vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi. Hann greipt svo boltann með sér að miðlínunni, stillti honum upp svo Blikar gætu hafið leik sem fyrst og „tók ofan“ fyrir stuðningsmönnum KA. Hrannar bróðir hans sá um að hvetja liðsfélaga þeirra til dáða.

_ _ _

SNÖGGIR AÐ KOMAST YFIR Á NÝ
Hvatning Hrannars dugði skammt því ekki voru liðnar tvær mínútur síðan Hallgrímur skoraði úr vítinu þegar Blikarnir voru komnir yfir á ný. Kristinn Steindórsson sendi á Ísak Snæ á vítateigslínunni, brotið var á Ísak en dómarinn lét leikinn halda áfram þar sem boltinn barst til Jasons Daða Svanþórssonar í miðjum teignum og hann skoraði örugglega.

_ _ _

TILTEKT
Fjörugir stuðningsmenn Breiðabliks fylgdu liðinu norður og sprengdu nokkrum sinnum confetti-sprengjur meðan á leiknum stóð; Breiðabliksgrænir strimlar svifu um svæðið og síðan til jarðar eins og lög gera ráð fyrir. Að leikslokum tóku nokkrir úr stuðningsliði meistaraefnanna sig til að áeggjan KA-manna og tóku til; týndu pappírsdótið í poka og héldu glaðir á braut.