Fara í efni
KA

Eitt stig í safnið: 10 KA-menn náðu að jafna

Jonathan Hendrick - Dusan Brkovic - Steinþór Már Auðunsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn nældu sér í eitt stig þegar þeir gerðu 1:1 jafntefli við FH-inga á Kaplakrikavelli síðdegis í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni. Þeir eru komnir með 17 stig eftir níu leiki og eru í fjórða sæti eftir leiki kvöldsins.

  • UPPFÆRT eftir leiki kvöldsins, HK - Breiðablik 2:3 og Valur - Fylkir 1:1.
  • Valur er efstur með 24 stig eftir 11 leiki, Breiðablik (10 leikir) og Víkingar (9 leikir) eru með 19 stig, KA (9 leikir) með 17, KR (9 leikir) með 15 og FH (10 leikir) með 12. 

KA-menn byrjuðu af krafti í dag og eftir tæpar 15 mínútur vildi Hallgrímur Mar Steingrímsson fá víti, þegar hann féll eftir viðskipti við Pétur Viðarsson en dómarinn, Pétur Guðmundsson, lét þá beiðni sem vind um eyru þjóta.

  • 1:0 á 21. mínútu - Björn Daníel Sveinsson lék á Brynjar Inga Bjarnason sem togaði FH-inginn niður niður og dómarinn gat ekki annað en dæmt víti. Brynjar Ingi var í raun ljónheppinn að fá ekki gult spjald, því honum hafði þegar verið sýnt það, fyrir brot strax á 2. mínútu, og hefði verið rekinn af velli hefði Pétur lyft því aftur. Brynjar slapp hins vegar með skrekkinn en Steve Lennon skoraði örugglega úr vítinu.
  • Rautt spjald á 67. mínútu - Miðverði KA, Dusan Brkovic, var réttilega vísað af velli. KA-menn höfðu verið í stórsókn, FH-ingar náðu boltanum og brunuðu fram og Dusan sá bara einn möguleika í stöðunni; felldi leikmann sem var að komast í gegn.
  • 1:1 á 75. mínútu - Það var vel gert hjá KA-mönnum að jafna einum færri. Daníel Hafsteinsson átti góða sendingu á Ásgeir Sigurgeirsson sem renndi boltanum til Jonathan Hendrickx og sá belgíski gat ekki annað en skorað, enda í dauðafæri. 

Bæði lið fengu mjög góð færi til að skora í leiknum. Brkovic skallaði til dæmis rétt framhjá FH-markinu, aðeins nokkrum augnablikum áður en FH fékk vítið og skoraði, Ásgeir Sigurgeirsson fékk svo dauðafæri snemma í seinni hálfleik en hitti ekki markið, FH-ingurinn Ágúst Hlynsson átti þrumufleyg í stöng í seinni hálfleik og Steinþór Stubbur, markmaður KA, varði frábærlega í tvígang. Leikurinn var sem sagt fjörugur og skemmtilegur, bæði hraður og harður, og úrslitin verða að teljast sanngjörn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.