Fara í efni
KA

Einar með 17 mörk í ótrúlegu jafntefli!

Einar Rafn Eiðsson var frábær í dag – gerði 17 mörk! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA og Grótta gerðu jafntefli í dag, 33:33, í stórskemmtilegum leik í Olís deildinni í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Liðin mættust í KA-heimilinu og óhætt að segja að áhorfendur hafi fengið mikið fyrir peninginn.

Einar Rafn Eiðsson fór hamförum í KA-liðinu í dag, gerði hvorki fleiri né færri en 17 mörk úr 19 skotum! Gaman að sjá að Einar er að komast í sitt besta form enda algjör lykilmaður í sóknarleik KA-manna. Hann var frá vegna meiðsla lungann úr síðasta keppnistímabili.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og Grótta hafði eins marks forystu að honum loknum, 15:14. Gestirnir höfðu svo frumkvæðið lengi vel í seinni hálfleik, voru mest þremur mörkum yfir, KA-menn jöfnuðu nokkrum sinnum en komust svo yfir í fyrsta skipti, 30:29, þegar um átta mínútur voru eftir. Vel var við hæfi að þar var Einar Rafn á ferðinni.

Allt leit út fyrir að þrautseigja KA-manna myndi tryggja þeim bæði stigin eftir að Arnór Ísak Haddsson kom þeim í 33:31 undir lokin en Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu hafði ekki gefið upp vonina. Hann tók leikhlé þegar aðeins 25 sekúndur voru eftir og virðist hafa sáldrað einhvers konar galdradufti yfir sína menn. Staðan var nefnilega vonlítil, svo ekki sé meira sagt. Theis Koch Søndergård skoraði hins vegar strax og Gróttu tókst að ná boltanum nánast um leið og KA hafði tekið miðju. Um leið og leiktíminn rann út fengu Gróttumenn svo vítakast og Birgi Steini Jónssyni brást ekki bogalistin; tryggði Seltirningum annað stigið með 12. marki sínu í leiknum.

Mörk KA: Ein­ar Rafn Eiðsson 17 (7 víti), Gauti Gunn­ars­son 5, Dag­ur Gauta­son 3, Arn­ór Ísak Hadds­son 2, Skarp­héðinn Ívar Ein­ars­son 2, Har­ald­ur Bolli Heim­is­son 1, Ein­ar Birg­ir Stef­áns­son 1, Hilm­ar Bjarki Gísla­son 1, Pat­rek­ur Stef­áns­son 1.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.