Fara í efni
KA

Darko Bulatovic aftur í raðir KA-manna

Darko Bulatovic í leik með KA gegn Val á Akureyrarvelli sumarið 2017, í efstu deild Íslandsmótsins, sem þá var kennd við Pepsi. KA-maðurinn til vinstri er Hallgrímur Mar Steingrímsson. Þeir verða nú samherjar á ný. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnudeild KA hefur samið við vinstri bakvörðinn Darko Bulatovic um að leika með liðinu út keppnistímabilið. Bulatovic, sem er 34 ára Svartfellingur, lék með KA sumarið 2017 og þekkir því vel til félagsins.

Bakvörðurinn Birgir Baldvinsson stundar nám í Bandaríkjunum og fer utan innan skamms þannig að Bulatovic er ætlað að fylla skarð hans.

„Sumarið 2017 var KA nýliði í efstu deild og skoraði Darko fyrsta mark tímabilsins er hann kom KA í 0-1 gegn Breiðablik í 1-3 sigri. Alls lék hann 18 leiki í deildinni þetta sumarið og stóð heldur betur fyrir sínu,“ segir á heimasíðu KA í dag.

„Undanfarin ár hefur Darko leikið í Svartfjallalandi, Kasakstan, Albaníu og Serbíu. Hann lék á sínum tíma þrjá landsleiki fyrir Svartfjallaland og verður sterkt að fá inn reynslumikinn leikmann fyrir hinn mikilvæga síðari hluta tímabilsins.“

Á fotbolti.net kemur fram að Bulatovic hafi síðast leikið með FK Sutjeska Niksic í efstu deild Svartfjallalands en þar áður en Allaznia í Albaníu, liðinu sem mætti Val í gær í Sambandsdeild Evrópu.