Fara í efni
KA

Dagur vonar en því miður vonbrigða

Ólafur Gústafsson með son sinn Gústaf að leik loknum. Ólafur var frábær lengst af leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn töpuðu fyrir Valsmönnum í úrslitaleik bikarkeppninnar í handbolta á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag þrátt fyrir hetjulega baráttu. Leikurinn var í járnum nær allan tímann og það var ekki fyrr en í blálokin að Valsmenn skriðu aðeins fram úr; lokatölur urðu 36:32 eftir að KA-menn voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15.

Ólafur Gústafsson gerði fyrsta mark leiksins og KA fékk svo víti strax í næstu sókn, eftir að brotið var á Ólafi. Hann hélt ótrauður áfram og gerði sjö mörk í fyrri hálfleiknum – öll með þrumufleygum. Sóknarleikur KA var mjög agaður í fyrri hálfleik og mér er til efs að Ólafur hafi leikið jafn vel í sókn í mörg ár! Hann var ekki síður frábær í vörninni og félagar hans stóðu sig reyndar allir vel á þeim vettvangi, ekki síst Einar Birgir Stefánsson og Arnar Freyr Ársælsson

Sama hörkubaráttan hélt áfram allan seinni hálfleik en vörn Valsmanna fann betri svör við sóknaraðgerðum KA-strákanna og Hlíðarendadrengirnir rauðu voru að sama skapi mjög frískir í sókninni.

Valsmenn jöfnuðu, 20:20, þegar sjö mín. voru liðnar af seinni hálfleiknum og komust yfir í fyrsta skipti, 21:20, með marki Vignis Stefánssonar tveimur mín. síðar. Höfðu þá gert þrjú mörk í röð.

Áfram munaði einu til tveimur mörkum allt þar til rúmar 10 mínútur voru eftir að Valsmenn komust þremur mörkum yfir í fyrsta skipti, 30:27. Jónatan KA-þjálfari tók umsvifalaust leikhlé eftir að Valur gerði 30. markið, það skilaði því að hans menn gerðu tvö næstu mörk en herslumuninn vantaði til að þeir næðu að jafna.

KA-strákarnir börðust hetjulega gegn mjög sterku Valsliði og höfðu lengst af í fullu trú við það. Mjög dró af Ólafi Gústafssyni þegar leið á leikinn og ekki undra, kappinn búnn að leggja sig allan fram í vörn og sókn, og KA-liðið mátti illa við því. Óðinn Þór Ríkharðsson lék mjög vel í dag, gerði alls níu mörk, þar af sex úr vítum og brást aldrei bogalistin þar. Fleiri léku mjög vel en breiddin var meiri í Valsliðinu.

KA-menn geta borið höfuðið hátt þrátt fyrir tapið og ekki síður stuðningsmennirnir sem voru til mikillar fyrirmyndar; létu vel í sér heyra allan tímann og sungu sínum mönnum til dýrðar lengi eftir að flautað var til leiksloka, til að þakka þeim fyrir frækilega frammistöðu og hvetja til dáða í næstu bardögum.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.

Allan Norðberg og Óðinn Þór Ríkharðsson gátu ekki leynt vonbrigðum sínum eftir tapið frekar en aðrir KA-menn, enda engin ástæða til. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Svo nærri en þó svo fjarri... KA-menn taka á móti silfurverðlaununum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Einar Rafn Eiðsson, Sverre Andreas Jakobsson, Heimir Örn Árnason og Haraldur Bolli Heimisson þakka KA-mönnum á áhorfendapöllunum fyrir frábæran stuðning. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ragnar Snær Njálsson ræddi við stuðningsmenn KA eftir leikinn.