Fara í efni
KA

Dagur framlengdi og KA burstaði Víking

Daði Jónsson svífur inn úr horninu í leiknum gegn Víkingi í gær. Daði gerði fjögur mörk í leiknum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Gærdagurinn byrjaði vel hjá meistaraflokki KA í handbolta, þegar tilkynnt var að Dagur Árni Heimisson, einn efnilegasti leikmaður landsins, hefði framlengt samning sinn við félagið um tvö ár. Síðdegis hélt gleðin svo áfram með stórsigri á Víkingi í Olís deildinni. 

Víkingar hófu leikinn mun betur, komust í 3:0 og 5:1, en þá vöknuðu KA-strákarnir til lífsins. Þeir tóku völdin og fljótt var ljóst hvert stefndi. Að vísu munaði ekki nema fjórum mörkum í hálfleik, staðan þá 14:10 fyrir KA, en heimamenn hreinlega stungu gesti sína af í seinni hálfleik og unnu með 15 marka mun, 33:18. Þetta var þriðji sigur KA og liðið er nú í sjöunda sæti með 16 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Sýnir mikla tryggð“

Dagur Árni er nú samningsbundinn félaginu til vors 2026. „Dagur Árni sem er 17 ára gamall hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað 46 leiki fyrir meistaraflokkslið KA þar sem hann er kominn í lykilhlutverk. Dagur er uppalinn hjá KA en hann er hluti af hinum ógnarsterka 2006 árgangi KA en strákarnir töpuðu ekki leik í rúmlega tvö ár er þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna,“ segir á heimasíðu KA.

Dagur Árni Heimisson og Haddur Júlíus Stefánsson formaður handknattleiksdeildar KA handsala samninginn. Mynd af vef KA.

„Þá er Dagur einnig fastamaður í yngrilandsliðum Íslands þar sem hann hefur heldur betur látið til sín taka. Hann var valinn í úrvalslið Opna Evrópumótsins í Gautaborg síðasta sumar er strákarnir í U17 ára landsliði Íslands enduðu í 5. sæti.“

Haddur Júlíus formaður handknattleiksdeildar KA er hæstánægður við undirritunina. „Við erum stoltir af því að framlengja samninga við ungu leikmennina okkar. Dagur Árni er einn efnilegasti leikmaður landsins og sýnir okkur mikla tryggð með því að skuldbinda sig hjá KA í tvö ár í viðbót,“ segir formaðurinn.

Nánar hér um Dag Árna

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna