Fara í efni
KA

Dagur bestur í sinni stöðu í Noregi

Mynd frá ØIF Arendal.

Dagur Gautason var kjörinn besti vinstri hornamaður í efstu deild norska handboltans í vetur, REMA-1000 deildinni. Valið var tilkynnt í dag. Það eru leikmenn deildarinnar sem kjósa þann besta í hverri stöðu og þessa dagana er verið að tilkynna niðurstöðurnar. 

KA-maðurinn knái var frábær með liði ØIF Arendal í vetur. Hann gerði 133 mörk í leikjum vetrarins og var með 77,8% skotnýtingu.

Fimmtán leikmenn komu til greina í kjörinu og Dagur hlaut meira en helming allra atkvæða – hvorki meira né minna en 52,2%, sem er mögnuð niðurstaða. Annar í kjörinu var Sindre Heldal, leikmaður Elverum, liðsins sem sló Dag og félaga í Arendal út í undanúrslitum um norska meistaratitilinn.

Dagur fór frá KA til ØIF Arendal síðasta sumar og varð strax gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna liðsins og raunar annarra félaga einnig.

Vert er að rifja upp frétt Akureyri.net síðan snemma í síðasta mánuði þegar Dagur var valinn fulltrúi ØIF Arendal í kosningu um titilinn Uppáhald áhorfenda í Noregi. Þá sagði á heimasíðu Arendal að Dagur byggi yfir ótrúlegri orku og sýndi jafnan mikla ástríðu í leikjum. „Hvort sem hann skorar eða einhver samherjanna fer aldrei á milli mála að það er Dagur sem fagnar hæst!“ segir þar og bent á að liðsfélagar Dags og áhorfendur komist ekki hjá því að smitast af jákvæðu viðhorfi hans.

Dagur sigraði að vísu ekki í því kjöri, en uppskar sannarlega glæsilega í dag eftir frábæran fyrsta vetur í Noregi.

ØIF Arendal varð í þriðja sæti REMA 1000 deildarinnar, á eftir Kolstad og Elverum og tapaði síðan fyrir síðarnefnda liðinu í undanúrslitum sem fyrr segir.

  • Smellið hér til að sjá stutt myndband af Degi Gautasyni og Camilla Herrem, sem kjörin var besti vinstri hornamaður í norsku kvennadeildinni.