Fara í efni
KA

Dagur á leið heim til KA á ný

Dagur Gautason og Stefánsson, formaður handknattleiksdeildar KA, handsala samninginn. Mynd af vef KA.

Handboltmaðurinn snjalli, Dagur Gautason, gengur til liðs við KA á ný á næstu leiktíð. Frá þessu var greint á heimasíðu KA fyrr í dag.

Dagur, sem er 22 ára og leikur í vinstra horninu, er uppalinn hjá KA en hefur leikið undanfarin tvö ár með liði Stjörnunnar í Garðabæ.

„Það er gríðarlega jákvætt skref að fá Dag aftur heim en Dagur var meðal annars kallaður til liðs við A-landslið Íslands á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í janúar á þessu ári,“ segir á heimasíðu KA.

„Dagur lék sína fyrstu meistaraflokksleiki tímabilið 2017-2018 er KA fór aftur að leika undir eigin merki og skoraði meðal annars ótrúlegt sigurmark á lokasekúndu fyrsta leiks liðsins fyrir troðfullu KA-heimili sem setti tóninn er liðið fór upp í deild þeirra bestu. Dagur lék ótal leiki fyrir öll unglingalandslið Íslands og fór bæði á EM og HM með unglingalandsliðunum.

Þá var hann valinn besti ungi leikmaðurinn í Olísdeildinni veturinn 2019-2020 en hann var markahæsti leikmaður KA það tímabilið en í kjölfarið gekk hann í raðir Stjörnunnar í Garðabæ. Hjá Stjörnunni hefur Dagur verið í algjöru lykilhlutverki og var eins og áður segir kallaður til liðs við A-landslið Íslands á EM fyrr á árinu.“