Fara í efni
KA

Dagbjartur til reynslu hjá Viking í Stavangri

Dagbjartur Búi, til hægri, á æfingu hjá Viking í síðustu viku.

Dagbjartur Búi Davíðsson, 16 ára KA-maður, var til reynslu hjá norska knattspyrnufélaginu Viking í Stavangri í síðustu viku. Hann æfði með leikmönnum í unglingaakademíu félagsins og gekk mjög vel að sögn föður hans, Davíðs Búa Halldórssonar.

Gaman er að segja frá því að Birkir Bjarnason er náfrændi Dagbjarts; faðir Dagbjarts er móðurbróður landsliðsfyrirliðans. Birkir hóf feril sinn sem atvinnumaður á sínum tíma með Viking, sem er eitt stærsta félag Noregs og það lið sem hefur unnið til flestra titla þar í landi fyrir utan stórveldið Rosenborg.

Stíft var æft og Norðmennirnir fylgdust grannt með Dagbjarti að sögn föður hans, bæði þjálfarar og yfirmaður akademíunnar.

„Mér fannst mjög mikil fagmennska einkenna allar æfingarnar, til dæmis var settur búnaður á skóna hjá Dagbjarti sem mælir hreyfingar, boltameðferð og fleira. Þær komu allar mjög vel út og þeir voru líka hissa á því hve vel hann kom út úr líkamlegu prófi, til dæmis hvað hann var hraður miðað við þeirra stráka.“

Davíð Búi sagði Norðmennina hafa verið ánægða með strákinn á æfingum, „þeir ætla að fylgjast áfram með honum og vilja fá hann út aftur einhvern tíma.“