Fara í efni
KA

Brynjar semur við Vålerenga til 2025

Brynjar Ingi þegar hann var kynntur til leiks hjá Lecce á Ítalíu í sumar. Bjarnason verður komið á treyju Vålerenga von bráðar.

Brynjar Ingi Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, semur til fjögurra ára við norska félagið Vålerenga skv. heimildum Akureyri.net. Hann er farinn með allt sitt hafurtask frá Ítalíu og skrifar undir samning við Vålerenga í Osló í dag – til loka keppnistímabilsins 2025.

Ítalska B-deildarfélagið Lecce keypti Brynjar í sumar frá KA en hann hefur lítið fengið að spila. Tveir reyndir miðverðir liðsins hafa leikið sérlega vel í haust og þrátt fyrir að Brynjar sé augljóslega í mjög góðri æfingu, eins og hann hefur sýnt með landsliðinu, hefur þjálfari Lecce ekki séð ástæðu til að breyta liði sínu.

Nokkur félög á Norðurlöndunum hafa fylgst með Brynjari í haust. Fyrsta tilboðið sem Lecce barst í Brynjar Inga, og ítalska liðið samþykkti, var frá Vålerenga, ekki Rosenborg eins og fram kom í fréttum á dögunum skv. heimildum Akureyri.net. Rosenborg sýndi honum hins vegar áhuga, eins og Noregsmeistarar Bodö/Glimt og sænsku liðin Hammarby og meistarar Malmö.