Fara í efni
KA

Brynjar mjög góður þrátt fyrir ein mistök

Byrjunarliðið í nótt. Aftari röð frá vinstri: Kolbeinn Sigþórsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Jón Daði Böðvarsson, Þórir Jóhann Helgason, Hjörtur Hermannsson og Birkir Már Sævarsson. Fremri röð frá vinstri: Ísak Bergmann Jóhannesson, Birkir Bjarnason, Hörður Ingi Gunnarsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Aron Einar Gunnarsson. Ljósmynd: KSÍ.

Brynjar Ingi Bjarnason, miðvörður úr KA, klæddist landsliðsbúningi í fyrsta skipti nótt þegar Ísland tapaði 2:1 fyrir Mexíkó í vináttuleik í Bandaríkjunum. Þetta var fyrsti vináttuleikur knattspyrnulandsliðsins í þriggja leikja hrinu.

Brynjar lék mjög vel í miðri vörninni gegn sterkum andstæðingum en gerði reyndar ein slæm mistök; það var á 72. mín. að misheppnuð sending nýliðins varð til þess að Mexíkóar komust í skyndisókn og jöfnuðu leikinn. Birkir Már Sævarsson hafði komið Íslandi yfir í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir þetta atvik stóð Brynjar Ingi sig gríðarlega vel, var yfirvegaður og öruggur eins og hans er von og vísa.

Þrír nýliðar voru í byrjunarliðinu í nótt, auk Brynjars þeir Þórir Jóhann Helgason og Hörður Ingi Gunnarsson, báðir úr FH, og KA-maðurinn var áberandi bestur þeirra. Líklega er það rannsóknarefni að hann skuli ekki fyrr hafa leikið fyrir hönd Íslands, að minnsta kosti með liði 21 árs og yngri.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði, var besti maður Íslands en varð að fara af velli á 60. mínútu eftir að hann varð fyrir hnjaski og það veikti liðið. Birkir Bjarnason stóð sig einnig vel, en þeim Brynjari Inga var báðum skipt út af á 80. mínútu.