Fara í efni
KA

Brynjar Ingi og Gígja best hjá KA

Brynjar Ingi Bjarnason og Gígja Guðnadóttir, íþróttamenn ársins 2020 hjá KA.

Brynjar Ingi Bjarnason knattspyrnumaður var í dag útnefndur íþróttakarl KA 2020 og blakkonan Gígja Guðnadóttir er íþróttakona KA 2020. KA-menn lýstu kjörinu í dag, á rafrænum afmælisfögnuði en félagið varð 93 ára á föstudaginn.

Í öðru sæti í karlakjörinu varð blakarinn Miguel Mateo Castrillo og í þriðja sæti Andri Snær Stefánsson, handboltamaður. Í öðru sæti í kvennakjörinu varð Ásdís Guðmundsdóttir handboltakona í þriðja sæti Karen María Sigurgeirsdóttir knattspyrnukona.

KA-menn kusu nú í fyrsta skipti lið ársins hjá félaginu og fyrir valinu varð meistaraflokkur kvenna í handknattleik, lið KA/Þórs. Þá kusu KA-menn einnig þjálfara ársins í fyrsta skipti og fyrir valinu varð Aðalbjörn Hannesson, yfirþjálfari yngri flokka knattspyrnudeildar.

Böggubikarinn var einnig afhentur, en hann var gefinn árið 2015 í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, eldheits KA-manns og starfsmanns félagsins, sem fædd var 16. júlí 1958 og lést 25. september 2011.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er pilti og stúlku, á aldrinum 16 til 19 ára, sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega; fólki sem er til fyrirmyndar á æfingum og í keppni, og er bæði jákvætt og hvetjandi. 

Knattspyrnumaðurinn Sveinn Margeir Hauksson og blakarinn Jóna Margrét Arnarsdóttir urðu fyrir valinu að þessu sinni og varðveita Böggubikarana næsta árin.

Afmælisfögnuðinn er hægt að horfa á HÉR