Fara í efni
KA

Blakveisla karla og kvenna í KA-heimilinu

Margfalt meistaralið KA í blaki kvenna í vor sem leið. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Blaktímabilið hefst formlega í dag með keppninni um titilinn Meistari meistaranna. KA tekur á móti HK í kvennaflokki og karlalið félagsins mætir liði Hamars, einnig í KA-heimilinu.

Leikur kvennaliðanna hefst klukkan 16.30 en karlarnir hefja leik klukkan 19.00.

KA varð Íslandsmeistari bæði í kvenna- og karlaflokki í vor. Stelpurnar gerðu reyndar betur en það; þær unnu allt sem var boði, annað árið í röð. Urðu Íslandsmeistarar, bikarmeistarar, deildarmeistarar og Meistarar meistaranna í byrjun tímabilsins.

Á heimasíðu KA er farið yfir breytingar á liðunum frá síðasta keppnistímabili:

  • Kvennalið KA hefur misst þrjá mikilvæga leikmenn fyrir komandi tímabil.

Gígja Guðnadóttir, fyrirliði og aðstoðarþjálfari karlaliðsins á síðustu leiktíð, er flutt til Frakklands þar sem hún mun búa og spila blak. Þá er Jóna Margrét Arnarsdóttir farin til Spánar þar sem hún mun leika blak í vetur. Jóna var aðstoðarfyrirliði liðsins síðasta vetur og því þvílík skörð höggvin í liðið bæði innan sem utan vallar með þessum tveimur leikmönnum. Þá mun Nera Mateljan ekki leika áfram með KA en hún lék með liðinu á síðustu leiktíð sem díó.

Í stað þessara þriggja leikmanna hefur kvennaliðið sótt sér styrkingu í spænskri stúlku að nafni Julia. Hún kemur frá liði í efstu deild á Spáni og mun gefa liðinu mikið í móttöku og vörn. Hún er að jafna sig eftir krossbandsslit en er orðin leikfær og verður gaman að sjá hana á dúknum í KA-heimilinu í vetur.

Þá munu yngri leikmenn KA liðsins fá stærri tækifæri enda tóku þeir stórt stökk í framför í fyrra og mun Amelía Sigurðardóttir leika sem fyrsti uppspilari liðsins.

KA-menn fagna Íslandsmeistarartitlinum í karlaflokki í vor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • Karlalið KA hefur misst fjóra leikmenn frá því á síðustu leiktíð.

Sölvi Páll Sigurpálsson sem leikur stöðu kants og sprakk út á síðustu leiktíð hefur söðlað um og farið heim til Neskaupsstaðar. Sömu sögu er að segja um Andra Snæ Sigurjónsson sem ákvað að flytja aftur heim á Neskaupsstað. Mateusz Jeleniewski verður ekki með liðinu amk fram til áramóta en mögulega ekkert á tímabilinu. Hann lék stöðu frelsingja og stýrði allri móttöku og vörn hjá liðinu á síðustu leiktíð.

Draupnir Jarl Kristjánsson mun heldur ekki leika með liðinu á komandi tímabili en hann lék stöðu uppspilara og stóð sig með prýði.

Aðrir leikmenn verða áfram, þar með talin Zdravko sem kom á miðju tímabili í fyrra og var valinn besti uppspilari deildarinnar í lok tímabils.

Þar sem að bæði ákveðin skörð eru höggvin í liðið með brotthvarfi ofantaldra leikmanna ákvað félagið að sækja sér einn leikmann til að styrkja liðið fyrir átökin í vetur. Sá leikmaður verður vonandi klár í slaginn á morgun og heitir Ivanov og kemur frá Búlgaríu. Mateo þjálfari bindur miklar vonir við hann í móttöku og uppspili hjá liðinu í vetur og verður gaman að sjá hann í gulu og bláu.