Fara í efni
KA

Bikarúrslit í húfi er KA fær Blika í heimsókn

Miðjumaðurinn Rodri hleypur fagnandi frá marki Breiðabliks eftir að hann skoraði með skalla og kom KA í 1:0 í deildarleik gegn Blikum á Greifavelli KA í fyrrasumar. KA vann leikinn 2:1. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nú er að duga eða drepast fyrir KA-menn!

KA fær Breiðablik í heimsókn í dag í undanúrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu. Segja má að leikurinn, sem hefst kl. 17.30,  sé sá mikilvægasti hjá KA á tímabilinu til þessa því sæti í bikarúrslitaleiknum er í húfi. 

Gengi KA-manna á Íslandsmótinu hefur verið undir væntingum, liðið er í sjötta sæti með 17 stig að loknum 14 leikjum; 20 stigum á eftir Víkingi sem er á toppnum og 17 stigum á eftir andstæðingum dagsins, sem eru í þriðja sæti Bestu deildarinnar og eiga leik til góða.

Nú er lag fyrir KA-strákana að rétta úr kútnum, spýta í lófana og tryggja félaginu sæti í úrslitaleik bikarkeppninnar í fjórða sinn. Júlí mánuður er spennandi því framundan eru tveir leikir í Evrópukeppni við Conna­h's Quay Nomads frá Wales, 13. og 20. júlí – fyrstu Evrópuleikir KA í 20 ár – en næsti leikur í deildinni er ekki fyrr en 24. júlí, á útivelli gegn Keflavík.

Fimmti bikarleikurinn

KA og Breiðablik hafa mæst fjórum sinnum áður í bikarkeppninni og KA þrisvar haft betur:

    • 2015 – Breiðablik - KA 0:1
    • 2008 – Breiðablik - KA 1:0
    • 2006 – KA - Breiðablik 3:2
    • 2002 – KA - Breiðablik 3:0

ALLT HÆGT!
Síðast þegar andstæðingar dagsins mættust í bikarkeppninni fögnuðu KA-menn sigri. Þetta var í 16-liða úrslitum 18. júní 2015 og leikið á Kópavogsvelli. KA var þá í 5. sæti næst efstu deildar Íslandsmótsins en Breiðablik taplaust í 2. sæti efstu deildar. Ævar Ingi Jóhannesson gerði sigurmarkið með skalla í framlengingu – á 98. mínútu. Úrklippan er úr Morgunblaðinu daginn eftir leik.
_ _ _

SÍÐASTA SIGURMARK KA GEGN BLIKUM! Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvisvar gegn Breiðabliki í deildinni síðasta sumar, í bæði skiptin úr vítaspyrnu. Hér skorar hann sigurmarkið (2:1) í deildarleik á heimavelli 11. september og fagnar að hætti hússins. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Við ramman reip að draga

Leikur KA og Breiðabliks í dag er önnur viðureign félaganna í sumar. Breiðablik sigraði 2:0 þegar þau mættust í Kópavogi í Bestu deildinni í maí. Liðin áttust þrisvar við í fyrra; Breiðablik vann heimaleikinn í deildinni 4:1, KA sigraði síðan 2:1 í sinni leiknum í hinni hefðbundnu deildarkeppninni en Breiðablik vann 2:1 á Greifavelli KA í lokakafla Íslandsmótsins, framhaldskeppni sex efstu liðanna.

Vitað mál er að það verður ramman reip að draga fyrir KA-menn í dag. Blikar töpuðu að vísu síðasta deildarleik, 5:2, gegn nágrönnum sínum í HK inni í Kórnum 23. júní, en hafa síðan unnið tvo glæsilega sigra í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Burstuðu Tre Penne frá San Marínó 7:1 og Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi 5:0.

Á góðum degi er Blikaliðið illviðráðanlegt en KA getur líka velgt öllum andstæðingum hér heima undir uggum nái liðið sér á strik. Og vert er að hafa hið fornkveðna í huga í dag: allt getur gerst í bikarkeppninni!

Hið risastóra N1 mót KA fyrir 5. flokk drengja hefst á morgun, þar verður fjölmennur hópur frá Breiðabliki og þess má vænta að margir Kópavogsbúar, leikmenn og foreldrar, verði komnir til Akureyrar fyrir leikinn í dag. Því má búast við skemmtilegri stemningu á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið; keppnin á áhorfendapöllunum gæti orðið áhugaverð, ekki síður en innan vallar.

  • Leikurinn verður sýndur beint á RÚV 2. Smellið hér til að horfa