Fara í efni
KA

Bikarinn: KA-menn taka á móti Grindvíkingum

KA-menn fá Grindvíkinga í heimsókn í dag í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar, bikarkeppni Knattspyrnusambands Íslands. Leikurinn hefst kl. 17.30 á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið.

Lið KA er í 5. sæti efstu deildar Íslandsmótsins, Bestu deildarinnar, en Grindavík í 3. sæti Lengjudeildarinnar, þeirrar næst efstu. Þótt Grindvíkingar leiki deild neðar en KA eru þeir sýnd veiði en ekki gefin; þeir gerðu sér lítið fyrir og slógu Valsmenn út úr bikarkeppninni í síðustu umferð, unnu 3:1 í Reykjavík þar sem gamla brýnið Óskar Örn Hauksson gerði þriðja mark liðsins með frábæru skoti frá miðju!

KA vann Uppsveitir 5:0 í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar í ár á heimavelli og sigraði síðan HK 3:1 á útivelli í 16-liða úrslitum.

Grindavík byrjaði á því að vinna Aftureldingu 1:0 í Mosfellsbæ í 2. umferð, vann síðan Dalvík/Reyni 2:1 á heimavelli og sló Val út í 16-liða úrslitum sem fyrr segir.

Hallgrímur Mar Steingrímsson er sá eini í KA-liðinu í dag sem var í síðasta sigurliði KA gegn Grindavík í bikarkeppninni, árið 2010. Hér er hann í leik gegn ÍR sumarið 2011. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA og Grindavík hafa fimm sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ. Síðast sumarið 2016, þar sem Suðurnesjaliðið vann. KA hefur tvisvar slegið lið Grindavíkur út, 1996 og 2010, en Grindavíkur haft betur í síðustu þrjú skipti.

Áhugavert að í bæði skiptin sem KA-menn slógu Grindvíkinga út mættust liðin í Grindavík. Einu sinni unnu Grindvíkingar á heimavelli en þeir hafa í tvígang haft betur gegn KA í bikarleik á Akureyri.

Viðureignir KA og Grindavíkur í bikarkeppninni til þessa:

  • 1996 – Grindavík – KA 1:3
  • 2010 – Grindavík – KA 1:1 (KA vann eftir vítaspyrnukeppni)
  • 2011 – KA – Grindavík 1:2
  • 2012 – KA – Grindavík 2:3
  • 2016 – Grindavík – KA 1:0

Eftir jafnteflið árið 2010 var gripið til vítaspyrnukeppni og þá tryggðu KA-menn sér sigur. David Disztl kom KA yfir í venjulegum leiktíma með marki úr vítaspyrnu en Grindavík jafnaði í seinni hálfleik. Ekki var skorað í framlengingu.

KA komst í 2:0 í vítakeppninni en á endanum höfðu bæði lið nýtt fjórar af fimm spyrnum. Markvörður KA, Sandor Matus, skaut yfir. Bráðabani var næst á dagskrá, Orri Gústafsson byrjaði á því að skora fyrir KA en Auðun Helgason Grindvíkingur skaut hátt yfir markið og KA komst þar með í átta liða úrslit.

Fyrirsögn Morgunblaðsins eftir síðasta bikarsigur KA á Grindvíkingum, sumarið 2010.

  • KA og Grindavík mættust síðast í febrúar 2022 þar sem KA vann 2:0 í Lengjubikarkeppninni. Leikið var í Akraneshöllinni.
  • Liðin mættust síðast í deildarkeppni í ágúst árið 2019. KA-menn sigruðu þá 2:0 á Grindavíkurvelli í efstu deild, Pepsi Max deildinni eins og hún nefndist þá.