Fara í efni
KA

Bikarinn í dag: KA - ÍR og Grótta - Þór

KA-maðurinn Ívar Örn Árnason og Þórsarinn Birkir Heimisson verða væntanlega í eldlínunni í dag. Myndir: Þórir Ó. Tryggvason og Skapti Hallgrímsson

Karlalið bæjarins í knattspyrnu verða bæði á ferðinni í dag í 32- liða úrslitum bikarkeppni KSÍ, Mjólkurbikarkeppninnar, KA á heimavelli en Þór á Seltjarnarnesi. Báðir leikirnir hefjast kl. 15.00.

  • KA - ÍR á Greifavellinum

KA lék til úrslita í keppninni í fyrra eins og mörgum er í fersku minni. Þetta er fyrsti leikur liðsins í keppninni í sumar, liðin í Bestu deildinni hefja keppni í 32-liða úrslitum. 

ÍR, sem leikur í næst efstu deild Íslandsmótsins, Lengjudeildinni, hóf keppni í síðustu umferð bikarkeppninnar og sigraði þá Knattspyrnufélag Vesturbæjar, KV, 7:1.

Á heimasíðu KA er þeim, sem ekki komast á Greifavöllinn, bent á að leikurinn verður í beinni útsendingu á sjónvarpsráðs KA, KA-TV. Útsendingin kostar 1.000 krónur - hér er slóðin: https://www.livey.events/ka-tv

  • Grótta - Þór á Vivaldi vellinum á Seltjarnarnesi

Liðin leika bæði í Lengjudeild Íslandsmótsins og hófu því leik í síðustu umferð bikarkeppninnar. Þórsarar unnu KFA örugglega, 5:1, í Boganum og Grótta sigraði Njarðvík 3:2 á heimavelli.

Á heimasíðu Þórs kemur fram að stuðningsfólk liðsins ætli að koma saman á veitingastaðnum Rauða ljóninu á Eiðistorgi frá kl. 13.30. Þar segir að þjálfarinn, Sigurður Höskuldsson, muni líta við, fara yfir liðið og áherslur í leiknum.

Leikurinn mun sýndur beint á sjónvarpsrás Gróttu - slóðin er youtube.com/@GrottaTV