Fara í efni
KA

Biðst afsökunar – rak fjórða dómarann út úr KA-heimilinu

Egill Arnar Sigurþórsson dómari sýnir Arnari Grétarssyni rauða spjaldið í leiknum gegn KR. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Arnar Grétarsson, þjálfari knattspyrnuliðs KA, segist hafa farið langt yfir strikið í mótmælum sínum í leiknum gegn KR í Bestu deild karla á heimavelli þriðjudaginn 2. ágúst. Hann staðfestir í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason í Þungavigtinni á Vísi að hafa vísað fjórða dómaranum, Sveini Arnarssyni, út úr KA-heimilinu daginn eftir leikinn.

Arnar fékk einnig rautt spjald í fyrri leiknum gegn KR og fór vegna þess sjálfkrafa í tveggja leikja bann. Hann var hins vegar úrskurðaður í fimm leikja bann eftir KR-leikinn og KA sektað um 100 þúsund krónur „vegna brottvísunar og atvika eftir leik,“ eins og aga- og úrskurðarnefnd KSÍ orðaði það.

Arnar segist, í samtalinu við Ríkharð, hafa fengið aukaleik í bann vegna atviksins í KA-heimilinu daginn eftir leikinn. KA hefur þegar áfrýjað úrskurði aga- og úrskurðarnefndar.

Óafsakanlegt

Þjálfarinn segist hafa hagað sér óafsakanlega. „Ég sé gríðarlega eftir því og nota tækifærið hér og nú og bið þessa einstaklinga innilega afsökunar vegna þess að það er ekkert sem afsakar það, sama hvort dómarar eru mjög slakir eða ekki, að þú missir þig svona. Ég missti bara hausinn, hagaði mér gríðarlega illa og kom sjálfum mér, leikmönnum og félaginu í slæma stöðu og sé fyrst og fremst gríðarlega eftir því.“

Morguninn eftir leikinn gegn KR hitti Arnar Svein fjórða dómara, sem búsettur er á Akureyri, í KA-heimilinu og var þá ekki runnin reiðin. „Ég labbaði framhjá skrifstofu sem er við hliðina á minni og þar sé ég fjórða dómara vera að rölta inn í herbergi þar sem handboltaþjálfararnir eru. Þar er hann bara með kaffibolla og enginn annar inni,“ segir hann í Þungavigtinni. „Ég var ekki enn búinn að jafna mig á þessu nokkrum klukkutímum seinna og vísaði honum út. Ég held ég hafi ekki notað einhver ljót orð en auðvitað var mér enn heitt í hamsi,“ sagði Arnar. Honum finnst sem Sveinn hefði getað lesið betur í aðstæður þennan morguninn þegar hann kom með barn sitt á æfingu.

„Heilt yfir leggja dómarar það ekki í vana sinn, og ég tala nú ekki um eftir svona atvik, að fara beint upp og að nudda salti í sárin. Eina sem ég gerði var að vísa honum út og spurði hann hvort hann hefði ekki átt að halda sig fjarri og gefa manni allavega dag til að jafna sig á hlutunum. Ég er hundrað prósent viss á því að ef hann hefði mætt tveimur dögum seinna hefði ég beðist afsökunar á mínu framferði og rætt atvikið.“

Smellið hér til að lesa fréttina á Vísi og hlusta á þáttinn.