Fara í efni
KA

„Betri leikmaður og reynslunni ríkari“

Andrea Mist fagnar marki með Þór/KA sumarið 2019 - og skrifar undir samning við liðið í dag.

„Heima er alltaf best og ákvörðunin um að koma aftur heim er gríðarlega góð tilfinning. Ég kem heim sem betri leikmaður og reynslunni ríkari. Að spila í Svíþjóð á hæsta „leveli“ gaf mér svo ótrúlega mikið sem manneskja og leikmaður,“ segir knattspyrnukonan Andrea Mist Pálsdóttir í viðtali á heimasíðu Þórs/KA. Hún skrifaði í dag undir tveggja ára samning við liðið.

Andrea Mist, sem er 23 ára, lék síðast með Þór/KA sumarið 2019 en hefur síðan verið á mála hjá FH og Växjö í Svíþjóð sem hún lék með síðasta sumar. 

„Stefnan var alltaf að vera að spila áfram í Svíþjóð en við féllum og þá var tilfinningin og hugsunin um að koma heim og spila með Þór/KA í sumar spennandi. Fjölskyldan og kærastinn eru búsett á Akureyri og því spilaði það líka stóran þátt í þessari ákvörðun minni,“ segir Andrea í viðtalinu.

Þar segir: Eins og fleiri, nefnir hún hinn unga og efnilega hóp hjá Þór/KA og segir gríðarlega spennandi að fylgjast með og að uppbyggingarstarfið sé frábært. „Ég tel að ég geti hjálpað liðinu að ná árangri og er gríðarlega spennt fyrir komandi tímabili. Ég hef mikla trú á leikmönnum og þjálfurum liðsins og tel ég að við getum komið öllum á óvart í sumar. Þór/KA er þekkt fyrir að vera baráttulið og ætlum við okkur að berjast við stærstu hákarlana. Markmiðin hjá mér eru skýr og fyrir mig tel ég þessa ákvörðun vera rétta í að verða enn sterkari, betri leikmaður og karakter.“

Smellið hér til að lesa viðtalið við Andreu Mist á heimasíðu Þórs/KA

Andrea Mist og Hulda Ósk semja við Þór/KA