Fara í efni
KA

Besta deildin: KA tapaði stórt gegn Val

Úr leik liðanna á Greifavelli í fyrra. KA-menn sáu aldrei til sólar í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA fékk 4:0 skell þegar liðið mætti Val í 7.umferð Bestu deildar karla, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag. KA-liðið sá aldrei til sólar í leiknum og var fyrri hálfleikurinn sérstaklega illa spilaður á meðan Valsmenn léku á als oddi.

Fyrsta mark leiksins kom strax á 1.mínútu þegar Adam Ægir Pálsson skoraði með föstu skoti í fjærhornið. Valsmenn voru eftir það með öll völd á vellinum og sköpuðu sér mörg færi á meðan ekkert gekk hjá KA.

Á 29.mínútu leiksins tvöfaldaði Aron Jóhannsson forystu gestanna með frábæru skoti á lofti inn í teignum eftir gott spil Valsmanna.

Andri Rúnar Bjarnason bætti svo þriðja marki Valsara við rétt fyrir hálfleik og staðan orðin slæm fyrir heimamenn. Í seinni hálfleik var spilamennska heimamanna betri en ekki gekk að skapa opin færi.

Adam Ægir bætti svo við sínu öðru marki og fjórða marki Valsmanna á 90.mínútu eftir sendingu frá Kristni Frey. Lokatölur á Greifavellinum 4:0 fyrir Val. KA-menn eru eftir leikinn enn með 11 stig og sitja enn sem komið er í fjórða sæti deildarinnar.

Nánar á eftir