Fara í efni
KA

Auðvitað mjög svekktur að tapa enn og aftur 4:0

Hallgrímur Jónasson og lærisveinar hans í KA sáu ekki til sólar í Garðabæ í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn voru langt frá sínu besta í kvöld þegar þeir töpuðu 4:0 fyrir Stjörnunni í Garðabæ í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þetta er þriðja 4:0 tap KA í sumar.

Sigur Garðbæinga, sem voru næst neðstir í deildinni fyrir leikinn, var mjög sanngjarn og liðið færðist upp um eitt sæti. KA er enn í fimmta sæti, hefur 14 stig eftir 11 leiki.

„Ég er auðvitað bara mjög svekktur og hvað þá að tapa enn og aftur 4-0,“ sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld. „Við þurfum að átta okkur á því að við þurfum að vinna ákveðna grunnvinnu saman því KA-lið sem tapar enn öðrum leiknum 4-0 er ekki að gera þá grunnvinnu,“ hélt Hallgrímur áfram.

„Fyrri hálfleikurinn var allt of passífur, þetta er lið sem er búið að vera í vandræðum en eru vissulega góðir á boltann og við einfaldlega leyfðum þeim að vera það. Þeir skoruðu fyrsta markið og við það efldust þeir og við fórum niður á við.“

Hallgrímur sagði einnig: „En það er klárt mál að við þurfum að gera betur því þeir skora fjögur mörk og það er allt of mikið. Við verðum samt að muna að við erum ennþá í þeirri stöðu að geta látið þetta sumar koma vel út. En núna verðum við allir að fara vel yfir þetta, ég, liðið og aðrir og gera betur næst.“ 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Umfjöllun fótbolta.net

Umfjöllun Morgunblaðsins

Umfjöllun Vísis