Fara í efni
KA

Átta ungar semja og Arna kemur að láni frá Val

Þær sömdu í gær. Saman á mynd, frá vinstri: Una Móeiður, Kimberley Dóra, Angela Mary, Sonja Björg, Iðunn Rán, Amalía, Steingerður og Krista Dís - og Arna Eiríksdóttir. Myndir af vef Þórs/KA

Átta ungar fótboltastelpur, úr yngri flokkum Akureyrarliðanna, skrifuðu í gær undir leikmannasamning við Þór/KA í fyrsta skipti. Þá var einnig tilkynnt um að ungur miðvörður, Arna Eiríksdóttir, kæmi að láni til Þórs/KA frá Val í sumar. Arna verður í leikmannahópnum strax í dag þegar Þór/KA sækir lið Breiðabliks heim.

„Yngriflokkastarfið hjá Akureyrarfélögunum heldur áfram að skila góðum leikmönnum upp í meistaraflokk félagsins,“ sagði á vef Þórs/KA þar sem greint var frá tíðindunum.

„Það hefur líklega komið fram hér á þessum vettvangi áður að Þór/KA er ekki á flæðiskeri statt hvað það varðar að fá upp í meistaraflokk frábæran efni við úr yngriflokkastarfi félagana, unga og efnilega leikmenn sem reglulega æfa og spila með yngri landsliðum Íslands,“ segir þar.

  • Þær sem gerðu samning í gær eru: Amalía Árnadóttir (fædd 2006), Angela Mary Helgadóttir (2006), Iðunn Rán Gunnarsdóttir (2005), Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir (2005), Krista Dís Kristinsdóttir (2006), Sonja Björg Sigurðardóttir (2006), Steingerður Snorradóttir (2005) og Una Móeiður Hlynsdóttir (2005)

„Með þennan efnivið sem Akureyri getur af sér, í bland við eldri og reyndari leikmenn, heimastelpur og aðfengnar, hafa þjálfarar liðsins sett saman spennandi leikmannahóp sem vonandi kemur stuðningsfólki þægilega á óvart með góðri frammistöðu í sumar. Það væri óeðlilegt með þessa ungu leikmenn og hinar reyndari með að við værum ekki smá spennt fyrir komandi sumri,“ segir á vef Þórs/KA.

Ung en með talsverða reynslu

Arna Eiríksdóttir verður tvítug á árinu, á að baki nokkur ár í meistaraflokki og er komin með talsverða reynslu á þeim vettvangi. Hún var í Víkingi í Reykjavík í yngri flokkum, spilaði síðan með meistaraflokksliði HK/Víkings í úrvalsdeildinni 2018 og 2019, en síðan með Val frá 2020, að því er segir á vef Þórs/KA.

Arna á að baki 60 meistaraflokksleiki með þessum félögum og hefur skorað í þeim fimm mörk. Þá á hún að baki fjóra Evrópuleiki með Val, 16 leiki í Reykjavíkurmótinu og samtals 24 leiki með U16, U17 og U19 landsliðum Íslands.

„Arna er sterkur leikmaður og spilar sem miðvörður, en hún kemur inn í hópinn hjá Þór/KA í stað Brooke Lampe, bandaríska miðvarðarins sem félagið samdi við um áramótin. Brooke hefur því miður þurft frá að hverfa af persónulegum ástæðum og var samningi hennar slitið að hennar ósk,“ segir á vef Þórs/KA.

Nánar upplýsingar hér á vef Þórs/KA um heimastelpurnar átta.