Fara í efni
KA

Ásgeir verður frá keppni í nokkrar vikur

Halldór Hermann Jónsson, sjúkraþjálfari KA, hugar að Ásgeiri Sigurgeirssyni eftir að hann meiddist í leiknum gegn KR fyrir norðan. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Framherjinn Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði knattspyrnuliðs KA, sem fór meiddur af velli gegn KR á þriðjudaginn, verður frá keppni í nokkrar vikur. Hann fékk betri fréttir í gær en sumir þorðu að vona; bönd í hnénu höfðu ekki skaddast en flísast hafði upp úr brjóski.

Ásgeir fór í aðgerð á hnénu í gær og segist vonandi verða klár í slaginn snemma í september ef endurhæfing gengur vel. Bjartsýnni spá er sú að hann verði jafnvel leikfær í lok þessa mánaðar.

KA-menn eiga þessa leiki eftir í deildinni, áður en henni verður skipt í tvennt og sex efstu liðin leika einfalda umferð og sex neðstu liðin sömuleiðis:

  • FH – KA 7. ágúst, næstkomandi sunnudag
  • KA – ÍA 14. ágúst
  • Stjarnan – KA 21. ágúst
  • KA – Víkingur 28. ágúst
  • Fram – KA 4. september
  • KA – Breiðablik 11. september
  • Valur – KA 17. september

Viðbótin, þar sem sex efstu liðin mætast einu sinni innbyrðis, hefst 2. október og lýkur 29. október.