Fara í efni
KA

Ásgeir fyrirliði semur við KA út árið 2025

Mynd af vef KA

Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA í knattspyrnu skrifaði í dag undir nýjan samning við félagið sem gildir út árið 2025. Frá þessu er greint á vef félagsins í kvöld.

Ásgeir er 25 ára gamall framherji sem kom fyrst til KA að láni frá norska liðinu Stabæk sumarið 2016. „Hann sló heldur betur í gegn er KA tryggði sér loksins sæti í efstu deild með sannfærandi sigri í Inkasso deildinni. Ásgeir skoraði 8 mörk það sumarið og þar á meðal sigurmarkið gegn Selfyssingum sem tryggði úrvalsdeildarsætið,“ segir á vef KA.

„Í kjölfarið gekk Geiri endanlega til liðs við KA og hefur nú leikið 127 leiki í deild og bikar fyrir félagið og gert í þeim 33 mörk. Eins og fleiri leikmenn KA kemur Geiri frá Húsavík þar sem hann lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Völsung sumarið 2012 aðeins 15 ára gamall. Þaðan gekk hann í raðir norska liðsins Stabæk þar sem hann dvaldi í tvö ár. Geiri er því þrátt fyrir ungan aldur kominn með ansi mikla reynslu í meistaraflokki.“

Meira hér á vef KA