Fara í efni
KA

Aron fyrirliði í 13% landsleikja Íslands!

Birkir Bjarnason og Aron Einar Gunnarsson í einum eftirminnilegasta landsleik Íslands, 1:1 jafnteflinu gegn Argentínu í fyrsta leik HM í Rússlandi 2018. Til vinstri framherjinn Sergio Aguero, einn sá besti í heimi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Birkir Bjarnason og Aron Einar Gunnarsson eru lang landsleikjahæstu akureyrsku knattspyrnumennirnir. Birkir á að baki 92 landsleiki en Aron 91, og í kvöld fjölgar þeim um einn þegar Íslendingar mæta fjórföldum heimsmeisturum Þjóðverja í Duisburg, í fyrsta leik undanriðils fyrir HM í Katar á næsta ári.

Viðureignin í kvöld er 500. landsleikur Íslands frá upphafi. Töluverður fjöldi Akureyringa hefur komið við sögu síðan sá fyrsti, Ragnar heitinn Sigtryggsson, Gógó, lék gegn Belgum í undankeppni HM á Laugardalsvelli í september 1957. Hann var þá orðinn 32 ára og var aldursforseti liðsins í leiknum, sem reyndist eini landsleikur KA-mannsins góðkunna.

Aron Einar og Birkir hafa fylgst að í landsliðinu síðasta áratuginn og voru þar áður saman í landsliði 21 árs og yngri sem tók þátt í lokakeppni EM í Danmörku árið 2011. Aron er Þórsari, lék með yngri flokkum félagsins og örlítið með meistaraflokki áður en hann hélt utan í atvinnumennsku á unglingsárum. Birkir er KA-maður, hóf ferilinn í yngstu flokkum félagsins, en flutti ásamt fjölskyldunni til Noregs 11 ára.

Líklegt er að báðir leiki áfram með landsliðinu næstu árin og allar líkur á að báðir slái leikjamet Rúnars Kristinssonar, sem tók þátt í 104 landsleikjum á árunum 1987 til 2004. Tveir þeirra sem eru í leikmannahópnum í dag eiga fleiri landsleiki að baki en Akureyringarnir, Ragnar Sigurðsson 97 og Birkir Már Sævarsson 95.

Atli Eðvaldsson, einn þekktasti knattspyrnumaður þjóðarinnar, hafði oftast verið fyrirliði landsliðsins áður en Aron Einar kom til skjalanna. Atli bar fyrirliðabandið í 31 leik en tölfræði Arons er í raun lygileg; Lars Lagerbäck gerði Aron að fyrirliða 2011, fljótlega eftir að hann tók við þjálfun liðsins. Aron var aðeins 23 ára og hefur nú verið fyrirliði í 63 landsleikjum – í meira en tvöfalt fleiri leikjum en Atli! Lygileg staðreynd.

Meira um Akureyringa og landsliðið síðar í dag.