Fara í efni
KA

Arnór meiddur og ekki í hóp - Halldór stoltur

Akureyringarnir Arnór Þór Gunnarsson, Halldór Jóhann Sigfússon og Alfreð Gíslason.

Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, er ekki í leikmannahópnum sem mætir Frökkum á HM í Egyptalandi í dag. Hann kom ekkert við við sögu gegn Sviss á miðvikudaginn; meiddist gegn Marokkó á mánudag, reyndi að hita upp fyrir leikinn á miðvikudag en fann að hann var ekki leikfær. Læknir og sjúkraþjálfarar meta stöðuna á hverjum degi þannig að ekki kemur í ljós fyrr en á sunnudag hvort Arnór verður með í síðasta leik milliriðilsins, gegn Noregi. 

Leikur Íslands og Frakklands hefst klukkan 17.00 og sýndur beint á RÚV.

Halldór Jóhann Sigfússon og lærisveinar hans frá Bahrein töpuðu gegn sterku liði Króatíu í gær, 28:18. „Fyrstu 15 mínúturnar urðu okkur algjörlega að falli en eftir það þá vorum við hrikalega flottir og það sérstaklega varnarlega. Fengum aðeins á okkur 15 mörk á 40 mínútum gegn frábærum Króötum,“ sagði Halldór Jóhann stoltur við Akureyri.net. Staðan eftir fyrsta korterið var 9:2 fyrir Króata, Bahreinar voru afleitir á þeim kafla eins og tölurnar gefa til kynna en þeir réttu úr kútnum og munurinn var fimm mörk í hálfleik, 13:8. Bahrein minnkaði muninn niður í fjögur mörk, 16:12, en svo seig á ógæfuhliðina á ný. „Við fengum fjögur tækifæri til að minnka muninn ennþá meira. Ég var svekktur með byrjunina en hrikalega stoltur af strákunum í 40 mínútur í gær,“ sagði Halldór Jóhann.

Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands, varð að sætta sig við tap fyrir Spánverjum, 32:28. Viðureignin var í járnum lengst af og Alfreð var ánægður með margt í leik sinna manna. „Við mættum á mótið án nokkurra lykilmanna en ég er stoltur af því sem liðið hefur gert til þessa – við erum hér til að öðlast reynslu.“