Fara í efni
KA

Arnar í 5 leikja bann, KA sektað um 100 þúsund

Egill Arnar Sigurþórsson dómari rekur Arnar Grétarsson, þjálfar KA, af vettvangi í leiknum gegn KR. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Arnar Grétarsson, þjálfari knattspyrnuliðs KA, var í dag úrskurðaður í fimm leikja bann eftir brottvísun í leiknum gegn KR á Akureyri á dögunum. Þá er KA sektað um 100 þúsund krónur „vegna brottvísunar og atvika eftir leik,“ eins og það er orðað hjá aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands í dag.

Þetta var í annað skipti í sumar sem dómari sýndi Arnari rauða spjaldið og þar af leiðandi fékk hann sjálfkrafa tveggja leikja bann. Hann var síðan úrskurðaður í þriggja leikja bann að auki vegna hegðunar og framkomu eftir leik. Arnar gagnrýndi fjórða dómara leiksins harðlega þegar hann fékk að líta rauða spjaldið og í viðtölum eftir leik.

Leikbann Arnars gildir einungis á Íslandsmótinu þannig að hann má stýra KA-liðinu í bikarleiknum gegn Ægi úr Þorlákshöfn á morgun, öfugt við það sem sagði upphaflega í fréttinni.

Arnar hefur þegar tekið út einn leik í banni, gegn FH í Hafnarfirði á sunnudaginn. Hann missir einnig af þessum leikjum í Bestu deildinni:

  • Stjarnan - KA sunnudag 21. ágúst
  • KA - Víkingur sunnudag 28. ágúst
  • Fram - KA sunnudag 4. september
  • KA - Breiðablik sunnudag 11. september 

Þegar Arnar má stjórna sínum mönnum á ný verður einn leikur eftir í deildinni, gegn Val á útivelli. Að því loknu tekur við fimm leikja úrslitakeppni.

Smelltu hér til að lesa um leik KA og KR