Fara í efni
KA

Arna Sif í liði ársins hjá Morgunblaðinu

Arna Sif jafnar, 2:2, á lokasekúndunni gegn Breiðabliki á Þórsvellinum í sumar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, er í liði ársins í Pepsi deildinni í knattspyrnu hjá Morgunblaðinu. Íþróttafréttamenn blaðsins gefa einkunnir eftir hvern leik og Arna Sif, sem lék mjög vel í sumar, fékk 15 M í jafn mörgum leikjum.

  • Leikmaður sem Mogginn telur hafa átt góðan leik fær 1 M í einkunn, 2 M eru gefin fyrir mjög góðan leik og 3 M fyrir frábæra frammistöðu.

Oftast allra í liði umferðarinnar

Arna Sif var valin oftar í lið umferðarinnar í Mogganum í sumar en nokkur annar leikmaður deildarinnar. Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki, sem er leikmaður ársins hjá Morgunblaðinu með 20 M, var átta sinnum í liði umferðarinnar en Arna Sif níu sinnum. Vert er að minna á að Arna Sif lék í vetur með Glasgow City í Skotlandi og missti þar af leiðandi af þremur fyrstu umferðum Íslandsmótsins. Agla María tók þátt í öllum 18 leikjum Breiðabliks.

Hulda Björg Hannesdóttir, félagi Örnu Sifjar í vörn Þórs/KA, er í hópi varamanna í liði ársins hjá Mogganum. Hún fékk 11 M í sumar og var einu sinni í liði umferðarinnar hjá blaðinu.