Fara í efni
KA

Arna Sif best hjá Þór/KA, Jakobína efnilegust

Jakobína Hjörvarsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir í sumar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Arna Sif Ásgrímsdóttir var valin besti leikmaður knattspyrnuliðs Þórs/KA í sumar á lokahófi liðsins á laugardagskvöldið og kemur engum á óvart. Það var heldur ekki óvænt að vinstri bakvörðurinn Jakobína Hjörvarsdóttir var valin efnilegust. Arna Sif var auk þess valin leikmaður leikmannanna af liðsfélögum sínum.

Arna Sif, sem er 29 ára og fyrirliði liðsins, hélt ræðu í lokahófinu og hrósaði ungum og efnilegum leikmönnum Þórs/KA. Margar stelpur úr báðum félögum eiga framtíðina fyrir sér. „Þetta er bara algjörlega einstakt. Það er svo frábært að vera partur af þessum hóp og fyrir mig sem svona... kalla mig gömlu konuna þó ég sé ekki orðin svo gömul, þegar svona margar nýjar eru að koma upp þá er svo yndislegt að vera partur af þessu og fá að taka þátt í þeirra fyrstu skrefum á þeirra meistaraflokksferli," sagði Arna Sif, að því er fram kemur á heimasíðu liðsins.

Jakobína er ein þessara bráðefnilegu leikmanna. Hún er fædd 2004, varð 17 ára í sumar en hefur nú þegar spilað 31 leik í meistaraflokki með Þór/KA – í deildar-, bikar- og meistarakeppni. Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki sumarið 2019 og spilaði þá sex leiki, síðan 11 leiki 2020 og 14 leiki í sumar. Jakobína missti af lokaleikjum liðsins vegna meiðsla.

Karen María Sigurgeirsdóttir var markahæst í liði Þórs/KA í sumar með fimm mörk. Hún var að ljúka fimmta tímabilinu með meistaraflokki hjá Þór/KA, en hún hefur spilað 82 leiki með liðinu og skorað 15 mörk. Karen María er þó aðeins tvítug.

Hjá Hömrunum, systurliði Þórs/KA sem leikur í 2. deild, var Margrét Mist Sigursteinsdóttir valin besti leikmaðurinn, bæði af þjálfurum og liðsfélögum sem leikmaður leikmannanna. Margrét Mist var jafnframt markahæst í liði Hamranna með átta mörk.

Harpa fékk Kollubikarinn

Harpa Jóhannsdóttir, markvörður Þórs/KA, hlaut Kollubikarinn, sem nú var afhentur í sjötta sinn. Hann er veittur til minningar um Kolbrúnu Jónsdóttur, fyrrverandi leikmann og stjórnarmann, sem lést langt fyrir aldur fram árið 2016.

„Við val á þeim leikmanni sem hlýtur Kollubikarinn eru hafðir til hliðsjónar eiginleikar sem prýddu Kollu sjálfa, áræðni, harka og dugnaður, svo einhverjir séu nefndir. Það er stjórn Þórs/KA sem velur þann leikmann sem fær Kollubikarinn hverju sinni,“ segir á heimasíðu Þórs/KA.

Handhafar Kollubikarsins frá upphafi:

  • 2016: Karen Nóadóttir
  • 2017: Sandra María Jessen
  • 2018: Arna Sif Ásgrímsdóttir
  • 2019: Lára Einarsdóttir
  • 2020: Heiða Ragney Viðarsdóttir
  • 2021: Harpa Jóhannsdóttir

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA, afhenti viðurkenningarnar í lokahófinu og hér að neðan með þeim sem sköruðu fram úr.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, leikmaður ársins hjá Þór/KA, og Andri Hjörvar Albertsson þjálfari. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Jakobína Hjörvarsdóttir, efnilegasti leikmaður Þórs/KA í sumar, ásamt Andra Hjörvari. 

Harpa Jóhannsdóttir og Andri Hjörvar. Harpa fékk Kollubikarinn.

Margrét Mist Sigursteinsdóttir ásamt Andra Hjörvari. Margrét Mist var valin besti leikmaður Hamranna, bæði af þjálfurum og leikmönnum, og varð auk þess markahæst í sumar.

Kristín Dís Kristinsdóttir var valin efnilegust í Hömrunum í sumar. Hún var ekki á lokahófinu og fékk viðurkenninguna afhenda daginn eftir.