Fara í efni
KA

Anna Rakel á leið frá Uppsala til Vals

Anna Rakel Pétursdóttir fyrir einn leikja IK Uppsala í sumar. Ljósmynd: Guðmundur Svansson.

Knattspyrnukonan Anna Rakel Pétursdóttir, fyrrverandi leikmaður Þórs/KA, er á leið til Vals í Reykjavík, skv. heimildum Akureyri.net. Anna Rakel, sem lék síðast með Þór/KA sumarið 2018, hefur verið í Svíþjóð síðustu tvær leiktíðir; var með liði Linköping í fyrrasumar en lék með Uppsala IK í sumar. Svíþjóðarmótinu lauk í gær, Uppsala varð lang neðst í efstu deild og nokkuð síðan ljóst var að Rakel yrði ekki áfram í herbúðum liðsins.

Valur varð Íslandsmeistari kvenna í fyrra en Hlíðarendastúlkurnur urðu að gera sér annað sætið að góðu á nýafstöðnu keppnistímabili, eftir harða baráttu við Breiðablik.

Anna Rakel var miðvallarleikmaður með Þór/KA en hefur aðallega leikið vinstra megin í þriggja manna vörn í Svíþjóð.

Anna Rakel, sem er 22 ára, lék með KA í yngri flokkunum en á að baki 81 leik í efstu deild Íslandsmótsins með Þór/KA, átta bikarleiki og fimm Evrópuleiki. Hún hóf að leika með meistaraflokki aðeins 15 ára, 2014; varð 16 ára síðar um sumarið. Anna Rakel varð fljótlega lykilmaður í liðinu og varð Íslandsmeistari með Þór/KA haustið 2017.