Fara í efni
KA

Andrea Mist gengin til liðs við Stjörnuna

Knattspyrnukonan Andrea Mist Pálsdóttir hefur samið við Stjörnuna í Garðabæ og mun leika með liðinu næstu árin. Stjarnan tilkynnti þetta í dag.

Andrea Mist, sem varð 24 ára í fyrradag, lék með Þór/KA í sumar eftir tveggja ára fjarveru þegar hún var á mála hjá FH, Breiðabliki og sænska liðinu Växjö. Hún lék með Þór í yngri flokkunum og hóf að leika með meistaraflokki Þórs/KA sumarið 2014, aðeins 15 ára. Andrea varð Íslandsmeistari með Þór/KA 2017, hvarf á braut eftir sumarið 2019 en lék heima á ný í sumar sem fyrr segir.

Andrea á að baki 179 skráða leiki í meistaraflokki, 126 þeirra í efstu deild. Hún hefur gert alls 32 mörk, þar af 18 í efstu deild.

„Ég er gríðarlega stolt og ánægð með nýja samninginn hjá Stjörnunni og get ekki beðið eftir að hefjast handa. Liðið er stútfullt af hæfileikaríkum og góðum leikmönnum eins og árangur sumarsins gaf að kynna. Aðstaðan og umgjörðin er frábær og hlakka ég mikið til komandi tíma í Garðabænum”, er haft eftir Andreu Mist á Facebook síðu Stjörnunnar.