Fara í efni
KA

Almarr undir feldi, Aron og Guðmundur farnir

Almarr Ormarsson, fyrirliði KA í knattspyrnu og lykilmaður liðsins síðustu misseri, liggur undir feldi og veltir framhaldinu fyrir sér. „Það er alveg óljóst hvað ég geri; ég hef rætt við KA og það getur vel verið að ég verði áfram, en ég hef líka heyrt í liðum hér fyrir sunnan,“ sagði Almar við Akureyri.net í morgun. Hann býr syðra ásamt Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur, leikmanni Vals, sem gengur með annað barn þeirra.

Ljóst er að tveir leikmenn verða ekki áfram hjá KA: framherjinn Guðmundur Hafsteinsson (á myndinni til vinstri í leik gegn Gróttu á Akureyrarvelli) sem varð markahæstur KA-manna á Íslandsmótinu í sumar, með sex mörk, er fluttur til Þýskalands með fjölskyldu sinni. Þá er Aron Dagur Birnuson, markvörður, genginn til liðs við Grindvíkinga en KA samdi nýverið áfram við Spánverjann Kristijan Jajalo, sem var aðalmarkvörður Grindavíkurliðsins í sumar. 

Aron Dagur, á hinni myndinni, er 21 árs og samdi til tveggja ára í Grindavík. Aron stóð í marki KA í 5 deildarleikjum í sumar og einum í bikarkeppninni. Hann á að baki 46 deildar- og bikarleiki í meistaraflokki, þar af 24 með Völsungi sem hann lék með sumarið 2018, en annars hefur Aron verið með KA frá unga aldri. Hann tók á sínum tíma þátt í 15 leikjum með yngri landsliðunum.