Fara í efni
KA

Allir klárir – þetta verður alvöru slagur

Aldís Ásta Heimisdóttir í einum úrslitaleikjanna við Val á síðasta keppnistímabili. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrsti leikur KA/Þórs og Vals í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta verður í kvöld í Origo höll Vals á Hlíðarenda.

Liðin mættust í úrslitaeinvíginu í fyrra og það var einmitt á heimavelli Vals sem Stelpurnar okkar í KA/Þór fengu Íslandsbikarinn afhentan eftir fjórðu og síðustu viðureignina; þær unnu einvígið sem sagt 3:1.

Valur varð í öðru sæti Olís deildarinnar í vetur og komst því beint í undanúrslit eins og Fram, sem varð deildarmeistari, en KA/Þór sló út Hauka í umspili um sæti í fjögurra liða úrslitum.

Leikin var þreföld í Olís deild kvenna í vetur, KA/Þór vann tvo fyrstu leikina gegn Val en tapaði þeim þriðja. Úrslitin urðu þessi:

  • 13. nóvember: Valur – KA/Þór 26:28
  • 29. janúar: KA/Þór – Valur 28:23
  • 14. apríl: Valur – KA/Þór 29:23

Allir leikmenn KA/Þórs eru klárir í slaginn, að sögn Andra Snæs Stefánssonar, þjálfara. Matea Lonac hefur ekki verið með upp á síðkastið í kjölfar þess að bolta var skotið í höfuð hennar en hún er orðin leikfær á ný.

„Það má búast við alvöru úrslitakeppnisslag,“ sagði Andri Snær við Akureyri.net í dag. „Við þurfum að mæta virkilega tilbúin til að berjast , við leggjum mikið upp úr því að varnarleikurinn verði í lagi og þá fær maður markvörslu með. Þetta eru lykilatriði í svona leik. Við ætlum að byrja þetta einvígi með alvöru frammistöðu í kvöld,“ sagði Andri Snær.

Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.