Fara í efni
KA

Aldís Ásta og Guðjón Valur - MYNDIR

Guðjón Valur Sigurðsson skorar markið ævintýralega gegn Aftureldingu í apríl 2001. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sigurmarkið ótrúlega sem Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fyrir KA/Þór í gær gegn Haukum eftir að leiktíminn rann út minnti óneitanlega á stórkostlegt mark sem Guðjón Valur Sigurðsson gerði fyrir KA í apríl 2001,  í sigurleik gegn Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins. Það er eitt sögulegasta mark sem KA-hefur maður hefur nokkurn tíma gert!

Aldís Ásta var nánast á sama stað á vellinum og Guðjón Valur á sínum tíma. Hún þrumaði boltanum yfir varnarvegginn og markvörð Hauka en Guðjón Valur snéri boltanum hins vegar framhjá varnarveggnum og í fjærhornið af mikilli snilld. Það mark er ógleymanlegt öllum sem sáu – en sumir misstu reyndar af því vegna þess að þeir ruku út þegar flautað var til leiksloka og KA fékk aukakastið á „vonlausum“ stað.

Leikur KA og Aftureldingar var tvíframlengdur og KA vann loks í bráðabana, 29:28, og komst í úrslit. Þá var vel við hæfi að Guðjón Valur gerði sigurmarkið, hans 13. í leiknum. Það var í lok fyrri framlengingar sem Guðjón Valur gerði markið frábæra, jafnaði þá 24:24.

Sá sem þetta skrifar var með myndavélina í KA-heimilinu 21. apríl 2001. Myndirnar birtust í Morgunblaðinu á sínum tíma.

Mark Aldísar Ástu í gær – örin bendir á boltann þar sem hann svífur fyrir ofan markvörðinn. Skjáskot af Vísi.

Ævintýramark Guðjóns Vals á sínum tíma. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Smellið hér til að myndband af marki Guðjóns Vals

Smellið hér til að sjá myndband af marki Aldísar Ástu