Fara í efni
KA

Afleitur fyrri hálfleikur varð KA að falli

Sveinn Margeir Hauksson gerði fyrra mark KA í dag en það dugði skammt. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði 4:2 fyrir Val í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, í Reykjavík í dag. Segja má að úrslitin hafi ráðist í fyrri hálfleik því að honum leiknum var staðan 3:0; KA-menn léku afleitlega í hálfleiknum og Valsarar réðu lögum og lofum.

Hið hefðbundna miðvarðapar KA var fjarri góðu gamni: Dusan Brkovic í leikbanni vegna brottreksturs í leiknum gegn HK um daginn og Ívar Örn Árnason, sem hefur verið að glíma við meiðsli, var á meðal varamanna. Þá var bakvörðurinn Birgir Baldvinsson í leikbanni vegna uppsafnaðra áminninga í sumar.

Tryggvi Hrafn Haraldsson gerði fyrsta markið strax á 11. mín., Orri Hrafn Kjartansson skoraði á 21. mín. og Tryggvi gerði annað mark sitt á 39. mín.

KA-menn mættu hressari til seinni hálfleiks og Sveinn Margeir Hauksson minnkaði muninn með góðu skoti frá vítateig þegar fimm mín. voru liðnar en Adam var ekki lengi í Paradís því Patrick Pedersen jók muninn í þrjú mörk á nýjan leik aðeins fjórum mín. síðar. Lokaorðið átti svo Ásgeir Sigurgeirsson – sem spilaði seinni hálfleikinn – þegar hann skoraði úr víti á 74. mín. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna